Karfan er tóm.
Þrátt fyrir mannfæðina tókst þeim að veita okkur verðuga keppni langt fram í leikinn. Við náðum þó undirtökunum snemma og héldum þeim til leiksloka. Fyrsta mark leiksins kom ekki fyrr en á 13. mínútu og þá var það Jón Gíslason sem reið á vaðið eftir sendingu frá Tomasi Fiala. Þessir tveir voru yfirburðamenn á ísnum og sýndu oft á tíðum frábæra sóknartakta á meðan Bjarnarvörnin starði á þá líkt og naut á nývirki, varnarlausir fyrir hröðu spilinu. Jón átti sjö stiga leik og a.m.k. fjögur stangarskot og hafði á orði á bekknum að stangirnar væru óvenju stórar þetta kvöldið. Fiala hefur ekki æft mikið í vetur en hann kann þetta allt saman og skapar ávallt mikinn usla þegar hann fer af stað. Seinna markið í lotunni, skoraði einmitt Tomas Fiala eftir sendingar frá Jóni Gísla og Sigurði Sigurðssyni í powerplay. Fleiri urðu mörkin ekki í lotunni og Sveinn þjálfari var ekki ánægður með afraksturinn. Í 2. lotu skoruðu fyrir SA Elvar Jónsteinsson og Sigurður Sigurðsson eftir sendingar frá Birni Jakobssyni og Jóni Gíslasyni en Björninn skoraði einnig tvö mörk og munurinn var því ennþá tvö mörk að lokinni 2. lotu – 4 – 2.
Í 3. lotu gekk allt upp en sjálfsagt hefur stuttur bekkur Bjarnarmanna hjálpað eitthvað til. Mörkin urðu alls sex talsins á endasprettinum og gilti þá einu hvort við vorum einum fleiri, einum færri eða jafnmargir, mörkin komu á færibandi. Guðmundur Guðmundsson skoraði eitt mark en annars voru það Fiala og Gíslason sem skiptust á að skora og senda á hvorn annan.
Leikurinn endað í sjö marka mun, með 10 mörkum gegn 3. Athyglisvert er þó að skoða skotafjöldann því aðeins munaði einu skoti á liðunum og því má ekki síst þakka Ómari Smárasyni markmanni SA þennan sigur, en þetta er í annað skiptið á einni viku sem hinn magnaði markmaður Bjarnarins Ala-Lathi er sigraður af íslenskum markmanni. Það verður þó að teljast jákvætt ekki síst þar sem Ómar Skúla og Birgir Sveinsson eru landsliðsmarkmenn okkar sem halda utan í næstu viku á HM.
Við eigum nú aðeins tvö leiki eftir í undankeppninni og báðir verða þeir gegn Skautafélagi Reykjavíkur hér heima í svokölluðum tvíhöfða (dobbúlhedder). Þegar við erum búnir að vinna þá báða höfum við tryggt okkur heimaleikjaréttinn.
Myndin er af Jóni Gíslasyni, lang stigahæsta leikmanni SA á þessu tímabili.
Mörk og stoðsendingar
SA: Jón Gíslason 4/3, Tomas Fiala 3/2, Sigurður Sigurðsson 1/2, Guðmundur Guðmundsson 1/1, Elvar Jónsteinsson 1/0, Björn Már Jakobsson 0/1, Elmar Magnússon 0/1.
Björninn: Birgir Hansen 2/0, Vilhelm Bjarnason 0/2, Trausti Bergmann 1/0
Brottvísanir
SA: 19 min
Björninn: 18 mín