SA í forystu

Nú er þremur leikjum lokið í úrslitakeppninni og spennan í hámarki.  Við unnum fyrsta leikinn í Reykjavík en töpuðum svo illa hér heima s.l. laugardag.  Staðan var því 1 – 1 fyrir þriðja leik úrslita sem háður var í gær í Höfuðborginni.  Það er skemmst frá því að segja að um algjör hlutverkaskipti var að ræða frá síðasta leik hér fyrir norðan, og nú vorum það við sem höfðum töglin og hagldirnar frá upphafi til enda.  Mörkin komu á færibandi í upphafi leiks og pökkurinn söng í netinu fyrir aftan Birgi Örn Sveinsson sem skipt var út með sólbrunninn hnakkann eftir 1. lotu.  Staðan var 5 – 0 þegar leikmenn gengu til búningsherbergja en næsta lota var öllu jafnari og lauk með jafntefli 1 – 1.

Staðan var því 6 – 1 fyrir okkur þegar 3. og síðasta lotan hófst og við þar með í ákjósanlegri stöðu.  Eitthvað urðu menn þó værukærir á endasprettinum og alls urðu mörk SR-inga 5 í síðustu lotunni en við skoruðum 4 á móti og því lauk leiknum með 10 – 6 sigri okkar.

Ef undan er skilin slæmur varnarleikur á tímabili í 3. lotu þá má segja að allt hafi gengið upp hjá okkur í gær.  Mörkin komu í undir öllum kringumstæðum, þegar jafnt var í liðum, í powerplay og einnig þegar við lékum einum leikmanni færri en það síðastnefnda átti Jón Gíslason eftir gott gegnumbrot undir lok leiksins.

Liðið spilaði á þremur línum og þess má geta að alls voru það 9 leikmenn sem skoruðu mörkin 10, þ.e. allir framherjar 1. og 2. línu og tveir framherjar 3. línu auk þess sem varnarmaðurinn Björn Már Jakobsson setti einn frá bláu.  Ómar Smári átti góðan leik og í heildina var allt liðið að spila vel.

Eftir fyrstu þrjá leiki úrslitakeppninnar má ljóst vera að heimaleikjarétturinn virðist vera lítils virði því allir þrír leikirnir hafa unnist á útivelli.  Á morgun eigum við heimaleik og ætlum okkur að snúa þessum álögum við en okkur gefst þá gullið tækifæri til að tryggja okkur Íslandsmeistaratitilinn.  Við þurfum stuðning allra sem vettlingi geta valdið og vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta hingað í Skautahöllina á morgun.

Mörk og stoðsendingar

SA:  Jón Ingi Hallgrímsson 1/3, Jón Gíslason 2/1, Rúnar Rúnarsson 1/2, Tomas Fiala 1/1, Sigurður Sigurðsson 1/0, Elvar Jónsteinsson 1/0, Guðmundur Guðmundsson 1/0, Sigurður Árnason 1/0, Björn Már Jakobsson 1/0, Elmar Magnússon 0/1, Steinar Grettisson 0/1

SR:  Mirek Krivanek 2/1, Daniel Kolar 1/0, Guðmundur Björgvinsson 1/0, Svavar Rúnarsson 1/0, Þorteinn Björnsson 1/0, Stefán Hrafnsson 0/1, Todd Simpson 0/1, Kári Valsson 0/1.