Karfan er tóm.
Leikurinn byrjaði með miklum látum þar sem hart var barist á báða bóga og mikið jafnræði með liðunum. Aðeins eitt mark var skorað í lotunni en þar var að verki Daniel Kolar fyrir gestina í power play en það er engum blöðum um að fletta að power play þeirra SR-inga er þeirra skæðasta vopn.
2. lota tók toll af þreki leikmanna, mikill hraði og tæklingar einkenndu lotuna en ekki vildi pökkurinn inn. SA bætti verulega í í þessari lotu og sótti hart og átti 18 skot á mark á móti 8 frá SR en Birgir Örn Sveinsson á milli reykvísku stanganna reyndist heimamönnum óþægur ljár í þúfu. M.a. fengu heimamenn rúman tíma undir lok lotunnar í 5 á 3 power play og áttu þar t.a.m. tvö stangarskot auk þess sem Biggi varði vel, en það er nánast skylda að skora með tvo leikmenn fleiri en andstæðingarnir.
Ekkert mark leit dagsins ljós í lotunni og því var mikil spenna og stemning fyrir 3. lotuna. Strax á 2. mínútu lotunnar jafnaði Björn Már Jakobsson leikinn með því að stýra pekkinum úr skoti Jóns Gíslasonar upp í þaknetið og við það ætlaði þakið að rifna af húsinu þegar mikill fjöldi áhorfenda trylltist á áhorfendapöllunum.
Skömmu síðar komust SR-ingar aftur yfir, og aftur var um að ræða power play mark frá þeim. Staðan var þá orðin 2 – 1 og allt í járnum. Ómar Smári Skúlason varði oft á tíðum líkt og berserkur og stöðvaði m.a. nokkur gegnumbrot SR-inga svo ekki sé minnst á þó nokkra tékkneska þrumufleyga frá bláu línunni.
Sem fyrr var fyrsta lína SA mjög skeinuhætt í framlínunni og það var svo Jón Gíslason sem jafnaði aftur fyrir SA með góðu marki eftir mikla baráttu í kringum markteiginn hjá SR-ingum. Nokkrum mínútum síðar kom Tomas Fiala SA yfir eftir sendingu frá Elmari Magnússyni. Þetta mark kom þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum. Það er óhætt að segja að gríðarleg spenna hafi svifið yfir vötnum sem eftir lifði leiks. Bæði lið fengu á sig dóma, SA 6 mín og SR 2 á þessum 10 mínútum og allt gat því gerst. Síðasta brottvísun SA kom þegar 15. sekúndur voru eftir af leiknum. Ed Maggiacomo þjálfari SR bað um leikhlé, tók markmanninn út og stillti upp 6 útispilurum gegn 4 SA-ingum og uppkastið var tekið inni í varnarsvæði SA.
Þessi fjórir leikmenn SA voru Héðinn Björnsson, Elvar Jónsteinsson, Sigurður Sigurðsson og Elmar Magnússon. Eftir uppkastið tókst fjórmenningunum að koma pekkinum út úr svæðinu í miklum hasar og upp með rammanum vinstra megin. Elvar Jónsteinsson setti undir sig hausinn og hentist í loftköstum á eftir pekkingum og rauk upp kantinn á seinna hundraðinu langleiðina niður í horn, gaf fyrir á Sigurð Sigurðsson sem þurfi ekki annað að ýta pekkinum í tómt markið á síðustu sekúndu leiksins.
Þar með lauk einum skemmtilegasta hokkíleik SA til margra ára. Ekki slæmt að leggja íslandsmeistarana að velli á heimavelli í spennandi leik sem þessum þar sem úrslitin ráðast ekki fyrr en við leikslok. Ekki spillti heldur fyrir frábær stemmning í húsinu með tilheyrandi látum. Í stúkunni voru t.a.m. tvær ef ekki þrjár áhafnir af rússneskum togurum sem lágu í Akureyrarhöfn auk hóps af Tékkum sem vinna hérna í bænum og skemmta sér konunglega á heimaleikjum SA.
Með þessum sigri komst SA uppfyrir Björninn að stigum og nú er allt á réttri leið. Nú hafa allir unnið alla á deildinni og ljóst að slagurinn verður harður um sæti í úrslitum í ár.
Mörk og stoðsendingar:
SA: Jón Gíslason 1/1, Björn Már Jakobsson 1/0, Sigurður Sigurðsson 1/0, Tomas Fiala 1/0, Elvar Jónsteinsson 0/1, Elmar Magnússon 0/1
SR: Daniel Kolar 1/0, Steinar Páll Veigarsson 1/0, Petr Krivanek 0/1, Þorsteinn Björnsson 0/1
Brottvísanir
SA: 20 mín
SR: 18 mín