Karfan er tóm.
SA Víkingar lögðu Björninn á laugardag í stórskemmtilegum leik í toppslag Hetrz-deildar karla með 6 mörkum gegnum 3. SA Víkingar jöfnuðu Björninn að stigum á toppi Hertz-deildarinnar en bæði lið eru nú með 12 stig en aðeins betri markatala Víkinga skilur liðin að. Jóhann Már Leifsson og Hafþór Andri Sigrúnarson voru atkvæðamiklir að vanda í leiknum og skoruðu tvö mörk hvor.
SA Víkingar byrjuðu leikinn vel á laugardag og höfðu tögl og haldir alla fyrstu lotuna. Jóhann Már Leifsson opnaði markareikninginn fyrir Víkinga um miðja lotuna með flottu einstaklingsframtaki og kom Víkingum í 1-0. SA Víkingar héldu áfram að stjórna leiknum út fyrstu lotu en þegar tæp mínúta lifði fyrstu lotu náði Elvar Ólafsson frákasti framan við mark Víkinga og jafnaði leikinn fyrir Björninn. Staðan var 1-1 eftir fyrstu lotu en Björninn fékk óskabyrjun í annarri lotu þegar Michal Stoklosa kláraði skyndisókn Bjarnarins vel og kom Birninum í 2-1. SA Víkingar jöfnuðu leikinn skömmu síðar þegar Baltasar Hjálmarsson stýrði pekkinum í netið hjá Birninum eftir fallega skot-sendingu frá Birni Jakobssyni. Leikurinn var í járnum það sem eftir lifði annarar lotunnar en Bjartur Gunnarsson tók þá lúmskt skot utan af kanti sem hinn öflugi markmaður Bjarnarins Artem Leontyev réð ekki við og kom SA Víkingum í 3-2 forystu fyrir þriðju lotuna. Sami þjálfari Víkinga hefur líklega sagt eitthvað hressandi við lið sitt í leikhléi því Víkingar komu algjörlega fljúgandi inn í síðustu lotuna og kláruðu nánast leikinn á fyrstu mínútum lotunnar. Jóhann Már Leifsson skoraði strax eftir 21 sekúndu þegar hann átti bilmings skot í markstöngina og kláraði frákastið sjálfur. Hafþór Andri Sigrúnarson bætti við fimmta marki Víkinga aðeins tveimur mínútum síðar þegar hann kláraði frákast af skoti Andra Mikaelssonar í netið. SA Víkingar lágu á vörn Bjarnarins það sem eftir lifði lotunnar en á einhvern óskiljanlegan hátt tókst ekki að koma pekkinum í netið oftar. Undir lok leiksins komst Kristján Kristjánsson einn í gegnum vörn Víkinga og minnkaði muninn í 5-3 fyrir Björninn. Hafþór Andri Sigrúnarson átti þó lokaorðið Víkinga í leiknum og skoraði 6. markið hann prjónaði sig í gegnum varnarsvæði Bjarnarins og þrumaði svo pekkinum í fjærhornið og gulltryggði 6-3 sigur Víkinga.
SA Víkingar halda áfram að safna stigum í deildinni og frammistaðan verður betri með hverjum leik. Jói Leifs hefur verið sjóðandi heitur í síðustu leikjum og virðist bera höfuð og herðar yfir aðra leikmenn deildarinnar um þessar mundir en hann nú markahæstur í deildinni með 6 mörk. Mörkin hafa einnig komið á tímapunktum sem liðið hefur virkilega þurft á marki að halda og hafa öll átt erindi í markatilþrifa syrpu tímabilsins. Í raun hefur fyrsta lína Víkinga með þá Andra, Haffa og Jóa verið óstöðvandi í síðustu tveimur leikum en Hafþór raðar nú einnig inn mörkunum og Andri Mikalesson er búin að leggja upp ein 9 mörk í 5 leikjum. Þegar þriðjungur af tímabilinu er lokið er tölfræði Víkinga nokkuð góð. Liðið er jafnt Birninum að stigum með 12 stig hvort en SR er enn án stiga á botninum. SA Víkingar hafa átt flest skot á mark allra liðanna fram að þessu eða 206 en einnig fæst á sig eða aðeins 142. Yfirtala SA Víkinga hefur verið best liðanna fram að þessu en Víkingar eru með yfir 27% nýtingu í sínum yfirtölum og drepið allar 10 undirtölurnar sem þeir hafa lent í á tímabilinu. Markvarsla Víkinga er einnig góð en þeir Jakob og Róbert eru með 91.55% markvörslu á milli sín en Björninn hefur verið með örlítið betra hlutfall eða 92.82%. SA Víkingar eiga tvo leiki eftir fram að jólafríinu en báðir eru þeir syðra, fyrst gegn Birninum 16. Nóvember og svo gegn SR 23. Nóvember. Næsti heimaleikur Víkinga er ekki fyrr en 7. Janúar þegar deildin hefst aftur eftir jólafrí.