Karfan er tóm.
SA Víkingar unnu stórsigur í gærkvöld þegar þeir tóku á móti SR í Skautahöllinni á Akureyri. Eftir markalausa fyrstu lotu röðuðu Víkingar inn mörkunum og unnu að lokum með 6 mörkum gegn engu. Þetta var síðasti leikurinn hjá Víkingum á þessu ári en þeir fara inn í jólafríið með 22 stig og sitja í öðru sæti deildarinna. SA Víkingar áttu góðann leik og gáfu stuðningsmönnum sínum því góða jólagjöf í ár.
SA Víkingar mættu grimmir til leiks í gærkvöld og stjórnuðu spilinu í leiknum frá fyrstu mínútu. SR-ingar vörðust vel í upphafi leiks og héldu Víkingum vel frá markteignum og Ævar í marki SR átti í litlum vandræðum með þau skot sem koma að utan. Um miðja lotuna fékk SR tvær brottvísanir með stuttu millibili og vörðust því 3 gegn 5 í um eina og hálfa mínútu. SA Víkingar náðu ekki að skapa sér afgerandi marktækifæri en varnarmenn SR pressuðu vel þrátt fyrir að vera undirmannaðir. Sókn Víkinga jókst eftir því sem leið á lotuna og voru Víkingar tvívegis hársbreidd frá því að skora en lotan endaði markalaus.
Í byrjun annarar lotu kom Jóhann Leifsson Víkingum yfir í leiknum þegar Kristján Árnason sendi hann einn gegn markverði SR og Jóhann þrumaði pekkinum í fjærhornið. Jóhann var svo aftur á ferðinni nokkrum mínútum síðar þegar hann fann Andra Mikalsson óvaldaðan framan við mark SR sem skoraði örugglega og kom SA í 2-0. SR fékk ágætis færi á næstu mínútum til þess að minnka muninn en hittu tvívegis stengurnar í marki Víkinga. Undir lok lotunnar fengu SR-ingar refsidóm og í yfirtölunni kom Ingvar Jónsson Víkingum í 3-0 þegar hann speglaði pekkinum milli fóta markvarðar SR.
SA Víkingar gáfu ekkert eftir í þriðju lotunni þrátt fyrir forystuna og héldu áfram að þjarma að marki SR. Andri Már Mikaelson skoraði sitt annað mark í leiknum og kom Víkingum í 4-0 og Mikko Salonen bætti svo við fimmta markinu stuttu síðar eftir frábæra sendingu Ingvars Jónssonar. Það var svo viðeigandi að Jóhann Már Leifsson skoraði sjötta og síðasta mark leiksins eftir góðann undirbúning Sigurðar Þorsteinssonar en Jóhann átti frábæran leik fyrir Víkinga í gærkvöld.
SA Víkingar fara inn í jólafríið í öðru sæti deildarinnar með 22 stig en SR enn á botninum með 10 stig. Esja vann Björninn á sama tíma syðra og eru því með afgerandi forystu á toppnum og 32 stig en Björninn eru í þriðja sæti með 17 stig. Næsti leikur SA Víkinga er á nýju ári þega þeir mæta Esju í Laugardalnum en næsti heimaleikur er ekki fyrr en 4. febrúar þegar Víkingar taka á móti SR.
Mörk og stoðsendingar Víkinga:
Jóhann Leifsson 2/2
Andri Már Mikaelsson 2/2
Ingvar Jónsson 1/1
Mikko Salonen 1/1
Sigurður Þorsteinsson 0/2
Jussi Sipponen 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1
Hafþór Andri Sigrúnarson 0/1
Kristján Árnason 0/1