Karfan er tóm.
SA Víkingar unnu 5-3 sigur á SR í spennandi leik á laugardag. SA Víkingar voru í bílstjórasætinu lengst af en SR komst inn í leikinn í 3. lotu og náðu að minnka muninn í eitt mark en nær komust þeir ekki. Þetta var síðasta einvígi þessara liða áður en þau mætast í úrslitakeppninni sem hefst 12. mars í Skautahöllinni á Akureyri.
SA Víkingar komu grimmir til leiks á laugardag og voru með yfirhöndina alla fyrstu lotuna á meðan SR lá í skotgröfunum en vantaði nokkra lykileikmenn í lið þeirra. Rúnar Freyr Rúnarsson kom Víkingum í 1-0 um miðja fyrstu lotu með hnitmiðuðu skoti. SA Víkingar stigu ekkert af bensíngjöfinni heldur bætti Kristján Árnason um betur fyrir Víkinga og kom þeim í 2-0 á 16. mínútu leiksins. Staðan var 2-0 eftir fyrstu lotu og SA Víkingar héldu áfram yfirhöndinni í leiknum og Jordan Steger kom Víkingum í 3-0 um miðja aðra lotu og nokkuð góða stöðu. SR minnkaði svo muninn í lok annarrar lotu þegar Robbie Sigurðsson slapp einn í gegnum vörn Víkinga og skoraði. Í bryjun 3. lotu fengu Víkingar yfirtölu sem þeir nýttu en Hafþór Sigrúnarson skoraði þá laglegt mark og staðan 4-1. SR fékk svo yfirtölu strax í kjölfarið sem þeir voru ekki lengi að nýta en Petr Kubos minnkaði muninn í tvö mörk. SR komst betur inn í leikinn á þessum tímapunkti og lágu á Víkingum það sem eftir lifði lotunnar og náðu að minnka muninn í eitt mark um miðja 3. lotu með öðru marki Robbie Sigurðsonar. SR fékk svo gullið tækifæri til þess að jafna leikinn í yfirtölu undir lok leiksins og skiptu út markmanni sínum fyrir auka sóknarmann en Jordan Steger náði þá að stela pekkinum og skora í tómt markið og tryggði SA Víkingum sigurinn.
SA Víkingar eiga tvo leiki eftir í deildarkeppninni og þá báða gegn Birninum á útivelli. Leikirnir skipa litlu sem engu máli um stöðuna í deildinni. SA Víkingar mæta svo SR í fyrsta leik úrslitakeppninnar þann 12. mars á heimavelli.