SA-Víkingar sigruðu Björninn 6 : 3

Rúnar nartar í hælana (mynd: Elvar Pálsson)
Rúnar nartar í hælana (mynd: Elvar Pálsson)

SA-Víkingar sigruðu Björninn um nýliðna helgi með 6 mörkum gegn 3. Víkingar telfdu fram tveimur nýjum leikmönnum en þó engum nýliðum í fjarveru Andra Más Mikaelsonar og Einars Valentin sem eru frá vegna meiðsla. Hinn mikli markaskorari Rúnar Freyr Rúnarsson reimaði aftur á sig skautanna og einnig Hilmar Leifsson sem er aftur kominn til starfa eftir framlengt sumarfrí.

Mikill hraði var í leiknum en Víkingar settu strax mikla pressu á Bjarnarliðið og fengu góð færi í upphafi leiks en engu munaði að Rúnar Freyr Rúnarsson næði að skora úr sinni fyrstu snertingu á tímabilinu þegar hann skaut í stöng.  Bjarnarmenn stóðust áhlaupið en fengu Power Play eftir um 6 mínútna leik sem fór ekki betur en svo að Ben Dimarco stal af þeim pekkinum í Penalty Kill og komst einn á móti Ómari, sólaði hann og setti pökkinn í autt mark. 1-0 verskulduð forysta Víkinga eftir 1. lotu.

Önnur lota hófst líkt og sú fyrsta endaði þ.e. Víkingar héldu uppi pressu á Bjarnarliðið. Ingþór Árnasson skoraði snemma frábært mark af bláu línunni þegar hann þrumaði pekkinum upp í markhornið. Jóhann Leifsson skoraði svo mark í Power Play og lagði svo upp annað snilldarlega fyrir Rúnar Frey Rúnarsson sem kláraði færið vel og hefur greinilega engu gleymt. Ingþór kom svo aftur með þrumufleyg af svipuðu færi og áður og aftur beint upp í hornið. Staðan orðin 5-0 og leikurinn rétt hálfnaður. Bjarnarmenn skiptu Ómari út og í markið kom ungur og efnilegur markmaður úr 3. flokki Bjarnarins, Maximilian Mojzyszek sem átti heldur betur eftir að koma við sögu. Hilmar Leifsson kom víkingum í 6-0 skömmu síðar þegar hann komst óvaldaður upp að marki Bjarnarins og kláraði örugglega. Bjarnarmenn minnkuðu muninn stuttu síðar úr Power Play og fengu svo hvert Power Playið á fætur öðru það sem eftir lifði lotunnar og settu mikla pressu á vörn Víkinga en Rett reyndist vandanum vaxinn og varði vel í marki Víkinga.

Í byrjun 3 lotu skoraði Lars Foder mark úr þröngu færi og Bjarnarmenn efldust við það enn frekar og fengu nokkur góð marktækifæri í kjölfarið sem ekki nýttust þó. Birkir Árnason óð svo upp að marki Víkinga og setti pökkinn snyrtilega í markið þegar rúmar 10 mínútur voru eftir af leiknum og virtist sem Bjarnarmenn gætu komið til baka úr nær vonlausri stöðu. Þeir héldu pressunni áfram en ungur leikmaður Bjarnarins endaði von Bjarnarmanna um að koma til baka þegar hann braut harkalega af sér nær tilefnislaust og eftirleikurinn því auðveldur fyrir Víkinga. Víkingar sóttu nær látlaust í lok leiks enda einum fleiri megnið af tímanum en fundu enga leið fram hjá ungum markverði Bjarnarins sem varði hreint stórkostlega oft á tíðum og greinilega mikið efni þar á ferð.

SA TV sendi leikinn út LIVE á vefnum og hægt er að skoða hann á http://www.ihi.is/is/upptokur

Næsti leikur Víkinga er gegn SR næstkomandi föstudag en sá leikur fer fram í Laugardal.

 

Mörk/Stoðsendingar

Víkingar

Ingþór Árnason 2/0

Ben Dimarco 1/2

Jóhann Már Leifsson 1/2

Rúnar Freyr Rúnarsson 1/1

Hilmar Leifsson  1/0

Sigurður Reynisson 0/1

Björninn

Lars Foder 1/1

Birkir Árnason 1/0

Hjalti Friðriksson 1/0

Nicolas Antonoff 0/1

Úlfar Andrésson 0/1