Karfan er tóm.
SA Víkingar mættu SR á laugardag og unnu nokkuð þægilegan 9-5 sigur. SA Víkingar náðu því aftur öðru sætinu í deildinni og eru í mikilli baráttu við Björninn um lausa sætið í úrslitakeppninni. Esja vann Björninn á sama tíma syðra 5-3 og tryggðu sér þar með deildarmeistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins.
SR mættu nokkuð fáliðaðir norður og því ljóst frá byrjun að róðurinn yrði erfiður. SA Víkingar stilltu upp sínu sterkasta liði að frátöldum Ingvari Jónssyni. SA Víkingar byrjuðu leikinn betur á laugardag og skoruðu fyrsta mark leiksins þegar Hafþór Sigrúnarson rendi pekkinum í netið í yfirtölu. SR jafnaði leikinn um miðja lotuna í yfirtölu og náðu svo forystunni stuttu síðar með mörkum frá Styrmi Maack og Miloslav Racansky. Jussi Sipponen jafnaði metin fyrir SA stuttu fyrir leikhlé og leikurinn stóð 2-2 eftir fyrstu lotuna.
SA byrjuðu aðra lotuna vel og náðu 3-2 forystu snemma með marki frá Jóni Gíslasyni. Um miðja lotuna náðu SA tveggja marka forystu þegar Jussi Sipponen þræddi sig í gegnum vörn SR og skoraði fallegt mark. Það tók hinsvegar SR aðeins rétt rúma mínútu að jafna leikinn með tveimur mörkum með stuttu millibili frá Styrmi Maack sem fullkomnaði þar með þrennuna sína í leiknum. SA Víkingar hrukku í gang aftur við þetta og skoruðu þrjú mörk í beit áður en lotan kláraðist en mörkin skoruðu Mikko Salonen, Jón Gíslason og Jussi Sipponen sem skoraði sitt þriðja mark í leiknum.
Það hitnaði aðeins í kolunum í þriðju lotunni og fengu liðin fjölmarga refsidóma. Kristján Árnason skoraði sitt fyrsta mark í Hertz-deildinni snemma lotunnar og kom SA í 8-4 og Sigurður Sigurðsson bætti svo við 9. marki SA um miðja lotuna. Varnamaðurinn Hákon Árnason hjá SR skoraði síðasta mark leiksins rétt fyrir leikslok og lokatölur því 9-5.
SA Víkingar endurheimtu með sigrinum annað sætið í deildinni þar sem Esja vann Björninn á sama tíma syðra og SA á því tvö stig á Björninn en þessi lið mætast á þriðjudaginn í Egilshöll. Esja tryggði sér deildarmeistaratitilinn í fyrsta skipti í sögu félagsins og eiga því heimaleikjaréttinn vísan í úrslitakeppninni og nú er aðeins spurning um hvaða lið mætir Esja þar. Næsti heimaleikur SA Víkinga er þriðjudaginn 14. Febrúar þegar Esja kemur í heimsókn í Skautahöllina á Akureyrir en leikurinn hefst kl 19.30.
Mörk og stoðsendingar Víkinga:
Jussi Sipponen 3/3
Jón B. Gíslason 2/3
Mikko Salonen 1/2
Sigurður Sigurðsson 1/0
Hafþór Andri Sigurúnarson 1/0
Kristján Árnason 1/0
Jóhann Már Leifsson 0/2
Andri Már Mikaelsson 0/1
Elvar Jónsteinsson 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1
Jussi Suvanto 0/1
Orri Blöndal 0/1
Matthías Stefánsson 0/1