Karfan er tóm.
SA Víkingar mættu Birninum í kvöld í Skautahöllinni á Akureyri en Bjarnarmenn unnu stórsigur, lokatölur 2-8. Björninn sem var í öðru sæti deildarinnar fyrir leikinn hafa nú unnið síðustu þrjá leiki sína með minnst 6 mörkum og líta svakalega vel út í byrjun tímabils. SA Víkingar sitja hinsvegar í neðsta sæti deildarinnar með aðeins eitt stig.
Nokkur ný en gömulkunn andlit sáust í liði Víkinga í kvöld en má þar helst nefna Elvar Jónsteinsson sem ekki hefur sést í deildinni um þónokkurt skeið en var þó einn besti maður heimaliðsins í kvöld. Markmaðurinn Jussi Suvanto gat ekki tekið þátt í leiknum vegna veikinga en Róbert Steingrímsson stóð vaktina í byrjun leiks og þá var fyrirliðinn Andri Mikaelsson en á meiðslalista. Björninn stillti upp sínu sterkasta liði en fyrirliðann Birki Árnason vantar þó en hann hefur ekki snúið aftur eftir meiðsli á síðasta tímabili.
Leikurinn byrjaði með miklum hraða þar sem liðin skiptust á að sækja upp völlinn en Björninn hélt pekkinum vel innan liðsins og áttu nokkrar góðar sóknarlotur. Björninn fékk yfirtölu snemma leiks þegar Víkingar voru of fjölmennir á vellinum en Róbert í marki Víkinga varði allt sem á markið kom. SA Víkingar komu sterkir til baka eftir undirtöluna og náðu nokkrum álitlegum sóknum. Björninn fékk refsidóm um miðja lotuna sem Víkingar náðu ekki að nýta en skömmu síðar fengu þeir aðra yfirtölu þar sem pökkurinn gekk á milli manna og á endanum fékk Jussi Sipponen pökkinn og þrumaði honum milli fóta varnarmanns og upp í markhornið. 1-0 fyrir SA og virtist sem markið hefði kveikt neista í liðinu og voru í kjölfarið í tvígang mjög nálægt því að ná tveggja marka forystu. Þremur mínútum fyrir lok lotunnar kom bakslag þegar gamli Víkingurinn Ingþór Árnason skaut af bláu línunni en leikmaður byrgði Róberti sýn svo pökkurinn söng í netinu og staðan 1-1 þegar gengið var til búningsherbergja.
Önnur lotan byrjaði skelfilega fyrir Víkinga þegar Bjarnarmenn fóru bókstaflega beint úr uppkastinu einir gegn markverði SA og komust í 2-1. Markið setti Víkinga gjörsamlega út af laginu en Björninn fékk tvær yfirmannaðar sóknir strax í kjölfarið og svo þá þriðju sem þeir og nýttu þegar Eric Anderberg náði frákasti úr sínu eigin skoti í þrígang og á endanum fór pökkurinn í markið. Björninn gekk á lagið og lét skotunum rigna á marki af bláu línunni á meðan sóknarmennirnir stóðu óáreittir og annað hvort stýrðu pekkinum í markið eða skoruðu úr fráköstum og skoruðu þeir í allt 5 mörk í lotunni gegn einu marki Víkinga svo staðan var 6-2 fyrir síðustu lotuna Birninum í vil.
Leikurinn var nánast formsatriði í síðustu lotunni en Bjarnarmenn skoruðu tvö mörk til viðbótar án þess að Víkingar næðu að svara. Ljósi punkturinn í leik Víkinga var kannski frammistaða markvarðanna ungu þeirra Róberts og Jakobs sem stóðu sig báðir prýðisvel þó þeir hafi fengið á sig fáein mörk þá gátu þeir lítið að þeim gert en vörðu það sem þeir sáu og fengu dýrmæta reynslu.
Nú tekur við kærkomið leikjahlé hjá Víkingum eftir mikla törn þar sem leikirnir hafa verið fleiri en þær æfingar sem liðið hefur náð eftir framkvæmdirnar í höllinni. Vonandi nær liðið nú að stilla saman strengi sína og koma þá sterkari til baka þegar þeir mæta SR á útivelli 14. október.