SA vinnur fyrsta leik tímabilsins

Mynd:  Ásgrímur Ágústsson
Mynd: Ásgrímur Ágústsson
Á laugardagskvöldið hófst Íslandsmótið í íshokkí með heimaleik hjá SA og að þessu sinni voru mótherjarnir Björninn úr Grafarvogi.  SA liðið hefur tekið nokkrum breytingum frá síðasta ári þó kjarninn sé nokkurn veginn sá sami.   Kópur Guðjóns er fluttur aftur suður yfir heiðar og Andri Már er fluttur til Svíþjóðar.  Josh Gribben tók við þjálfarastöðunni af Söruh Smiley og fékk hann óskabyrjun í frumraun sinni sem aðalþjálfari meistaraflokks með því að leggja Björninn að velli í fyrsta leik tímabilsins, 4 – 2.Aðal markaskorari liðsins, Jón Gíslason er meiddur og mun ekki spila með liðinu fyrr en eftir áramót og er það skarð fyrir skyldi, en maður kemur í manns stað og nú fengu nokkrir ungir og efnilegir leikmenn að spreyta sig og fórst verkið vel úr hendi.  Leikmenn líkt og Ingólfur Elíasson, Gunnar Darri Sigurðsson og bræðurnir Hilmar og Jóhann Leifssynir fengu mikinn ístíma og munu leika lykilhlutverk í liðinu í vetur.   Þess má til gamans geta að þrír bræður voru á leikskýrslu SA, því auk þeirra Hilmars og Jóa var Sæmundur bróðir þeirra varamarkmaður.Fyrsta mark leiksins átti Lurkurinn Rúnar Freyr Rúnarsson eftir hnoð fyrir framan markið en Úlfar Andrésson jafnaði leikinn skömmu síðar í power play.   Orri Blöndal jók muninn aftur fyrir SA með fallegu marki eftir góðan undirbúning frá Sigmundi Sveinssyni en Úlli var aftur á ferðinni fyrir Björninn og skoraði með dragskoti frá bláu fram hjá Ómari Smára í markinu.Þannig stóðu leikar eftir 1. lotu og jafnræðið hélt áfram í 2. lotu en eina mark lotunnar skoraði Ingvar Þór Jónsson og kom SA í 3 - 2.  Síðasta mark leiksins kom svo þegar skammt var eftir til leiksloka, Andri Sverrisson laumaði pekkinum í fætur eins varnarmanna Bjarnarins og þaðan í markið og gulltryggði fyrsta sigur tímabilsins.Það er alltaf gaman að spila við Bjarnarmenn, þeir eru með ungt og skemmtilegt lið, baráttuglaða leikmenn sem halda fullri pressu allan leikinn.  Í lið Bjarnarins vantaði nokkra lykilleikmenn s.s. Birgi Hansen, Brynjar Þórðarson, Trausta Bergmann og Daða Heimisson og næsta víst að þeir mæta sterkari til leiks næst.  Við eigum þó ennþá nokkuð inni, fyrsti leikur segir ekki allt um framhaldið þar sem hópurinn á eftir að þéttast og slípast til í leikkerfum nýs þjálfara. Meðfylgjandi mynd er af fagnaðarlátum þeirra Orra og Simma en eins og sjá má voru þeir alveg hoppandi kátir með markið.