Sigur á Serbum eftir vítakeppni


Óhætt er að segja að Íslendingar þurfi að hafa fyrir stigunum sem þeir safna sér til þess síðan vonandi að fá silfurverðlaunin í II. deild A á Heimsmeistaramóti karla í íshokkí. Sigur í vítakeppni gegn heimamönnum í dag og úrslit annarra leikja hjálpa.

Eftir sögulegan sigur á Belgum hafa Íslendingar í tvígang farið í framlengingu, unnu Ástrali með gullmarki og bættu svo við sigri á Serbum í dag eftir vítakeppni.

Íslenska liðið komst í 2-0 í fyrsta leikhluta og 3-0 snemma í öðrum. Serbar minnkuðu muninn í 3-1 í örðum leikhluta og náðu svo að jafna leikinn þegar um korter var eftir. Þar við sat og farið í framlengingu, en þar tókst hvorugu liðinu að skora. Það var svo ekki fyrr en í sjötta vítaskoti sem úrslitin réðust, en þá skoruðu Íslendingar og markvörður íslenska liðsins varði svo síðasta víti Serba. Akureyringarnir í landsliðinu voru ekki á meðal markaskorara í dag, en Jón Benedikt Gíslason átti eina stoðsendingu. Úrslitin: Serbía - Ísland 3-4 (0-2, 1-1, 2-0, 0-0, 0-1).

Íslenska liðið átti mun fleiri skot á mark en það serbneska, sérstaklega í fyrstu tveimur leikhlutunum.

Úrslitin í leik Belga og Ástrala fyrr í dag urðu okkar mönnum í hag. Ástralir unnu stórsigur á Belgum og því eru bæði liðin með 5 stig, en Íslendingar eru komnir með 7 stig eftir sigurinn á Serbum. Lokaleikur liðsins verður gegn Ísraelum á morgun og hefst hann kl. 14.30 að íslenskum tíma. Sem fyrr er hægt að fylgjast með leikjunum í beinni útsendingu - hér.

Atvikalýsing 
Staðan
Heimasíða mótsins

Mogginn á hrós skilið fyrir umfjöllun um mótið og er með mann á staðnum sem lýsir leikjunum og tekur viðtöl við strákana. 

Hér er frétt mbl.is um leikinn í dag.