Karfan er tóm.
Leikurinn var virkilega fjörugur en kaflaskiptur, þar sem okkar menn byrjuðu betur en slógu svo heldur of mikið af. Það voru reyndar Bjarnarmenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins en síðan duttu strákarnir í gírinn og enduðu með því að vinna lotuna 5 – 2.
Í annarri lotu voru það bara Bjarnarmenn sem mættu til leiks, a.m.k. voru heimamenn aðeins áhorfendur og gestirnir unnu lotuna með tveimur mörkum gegn engu og breyttu stöðunni í 5 – 4.
SA jók muninn í 6 – 4 strax í byrjun 3. lotu og þar var að verki Einar Guðni eftir gott spil með Sindra Má og Birki. Einar kom þarna sterkur inn beint ofan af slysadeild, en hann skarst á hendi fyrr í leiknum og þurfti nokkur spor. Hart var barist í lotunni og mikið jafnræði var með liðum en þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum minnkuðu Bjarnarmenn muninn í eitt mark og við það magnaðist spennan. En á síðustu mínútu leiksins innsiglaði Sigurður Óli Árnason sigur SA eftir gott gegnumbrot. Lokastaðan 7 – 5
Leikurinn var hraður og skemmtilegur allan tíman og ekki laust við að nýju reglurnar geri leikinn hraðari og áhorfendavænni – fá kylfubrot og hindranir. Leikurinn var mjög prúðmannlega leikinn af báðum liðin en heppnin var ekki með leikmönnum því alls þurftu þrír leikmenn á læknishjálp að halda.
SA liðið sýndi góðan karakter í lokin og hélt fengnum hlut, þrátt fyrir harðar sóknir Bjarnarmanna.
Mörk og stoðsendingar SA
Guðmundur Guðmundsson 2/0, Andri Már Mikhaelsson 2/0, Sindri Már Björnsson 1/1, Birkir Árnason 0/2, Einar Guðni Valentine, 1/0, Sigurður Óli Árnason 1/0, Sigmundur Sveinsson 0/1,