Sigur í fyrsta leik í úrslitarimmunni

Myndir: Elvar Freyr Pálsson
Myndir: Elvar Freyr Pálsson


SA sigraði Björninn, 7-3, í fyrsta leik í úrslitakeppni meistaraflokks kvenna. "Við höfum leikið betur, en ég er ánægður með að fyrsta leik sé lokið og stressið búið," sagði þjálfari SA að leik loknum. Birna Baldursdóttir skoraði þrjú mörk í kvöld.

Taugarnar þandar í byrjun
"Ég er ánægður með að fyrsta leik sé lokið, nú er stressið búið. Við getum spilað betur, ég hefði viljað geta spilað á fleiri leikmönnum, en er ánægður með sigurinn," sagði Ingvar Þór Jónsson, þjálfari SA strax eftir sigur liðsins á Birninum í kvöld.

Richard Tahtinen, þjálfari Bjarnarins, var að sjálfsögðu ekki ánægður með að tapa leiknum, en hrósaði sínum stelpum fyrir baráttuna. "Við erum með ákveðinn kjarna leikmanna sem við byggjum á, en svo er ég með stelpur sem eru ekki búnar að æfa lengi og þær komu inn og spiluðu mjög vel í kvöld," sagði Richard í spjalli við tíðindamann sasport.is. Hann er í þeirri skondnu stöðu að vera bæði þjálfari kvennaliðs Bjarnarins og kvennalandsliðsins og er nýkominn úr ferð til Suður-Kóreu þar sem í hópnum voru tólf leikmenn úr SA - sem síðan voru andstæðingar hans í kvöld. 

Leikurinn fór hægt af stað, ef til vill var stressið eitthvað að setja mark sitt á leikinn í byrjun. Gestirnir komust yfir eftir tæplega átta mínútna leik. Þar var á ferðinni Steinunn Sigurgeirsdóttir eftir stoðsendingu frá Lilju Maríu Sigfúsdóttur. Adam var ekki nema fjórar mínútur í paradís því Sarah Smiley jafnaði leikinn þegar um 12 mínútur voru liðnar af leiknum, eftir stoðsendingu frá Önnu Sonju Ágústsdóttur. Ekki var meira skorað í fyrsta leikhluta.

Líflegra í öðrum leikhluta
Bæði lið hresstust nokkuð í öðrum leikhluta, leikurinn var áfram jafn og spennandi en segja má að munurinn hafi einungis verið sá að SA-stelpur náðu að skora tvívegis en Bjarnarstelpur ekki. Fyrst var það Guðrún Blöndal eftir tæplega sjö mínútna leik í öðrum leikhluta, stoðsendinguna átti Birna Baldursdóttir. Sarah Smiley kom SA síðan í 3-1 skömmu síðar og þá voru það Diljá Sif Björgvinsdóttir og Guðrún Marín Viðarsdóttir sem áttu stoðsendingar. Staðan 3-1 að loknum öðrum leikhluta.

SA-stelpur sigu fram úr
SA tóku svo völdin á svellinu smátt og smátt í þriðja leikhluta, sóttu talsvert meira og uppskáru mark strax í upphafi, 4-1, þegar Anna Sonja Ágústsdóttir skoraði eftir stoðsendingu frá Söruh Smiley. Bjarnarstelpur gáfust þó ekki upp og eftir rúmlega sjö mínútnla leik í þriðja leikhluta minnkaði Flosrún Vaka Jóhannesdóttir muninn í 4-2. Tveimur mínútum síðar jók Birna Baldursdóttir aftur muninn, kom SA í 5-2 eftir stoðsendingu frá Jónínu Guðbjartsdóttur og Söruh Smiley. Gestirnir neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn í 5-3 þegar rúmlega sjö mínútur voru eftir af leiknum. Þar var aftur á ferðinni Flosrún Vaka, í þetta skiptið eftir stoðsendingu frá Kristínu Ingadóttur og Sigrúnu Sigmundsdóttur.

Atgangur í lokin
Nokkur spenna hljóp í leikinn í lokin og þegar rúmlega þrjár mínútur voru eftir af leiknum tók Björninn markmann sinn út af til að auka sóknarþungann. Eftir það var mikill atgangur við mark SA, en inn vildi pökkurinn ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir gestanna. Að lokum náðu SA-stelpur pökknum og Birna Baldursdóttir skoraði í autt markið utan af velli eftir stoðsendingu frá Önnu Sonju Ágústsdóttur. Birna kláraði svo leikinn endanlega á lokamínútunni og kom SA í 7-3.

Nokkuð óvænt mótspyrna
Ef miðað er við leiki þessara liða í deildinni í vetur má segja að lið Bjarnarins hafi komið nokkuð á óvart og greinilegt að stígandi er í leik liðsins frá því í haust. Mótspyrna var ef til vill meiri en áhorfendur og kannski heimaliðið einnig áttu von á, en að sjálfsögðu má aldrei vanmeta lið þegar komið er í úrslitakeppni og raunar mátti ekki miklu muna að Björninn kæmist inn í leikinn alveg í lokin - lukkan var þó með heimaliðinu að þessu sinni.

SA
Mörk/stoðsendingar:
Birna Baldursdóttir 3/1
Sarah Smiley 1/3
Anna Sonja Ágústsdóttir 1/1
Guðrún Blöndal 1/0
Diljá Sif Björgvinsdóttir 0/1
Jónína Guðbjartsdóttir 0/1
Guðrún Marín Viðarsdóttir 0/1 
Refsingar: 12 mínútur
Varin skot:  27

Björninn
Mörk/stoðsendingar
Flosrún Vaka Jóhannesdóttir 2/0
Steinunn Sigurgeirsdóttir 1/0
Lilja María Sigfúsdóttir 0/1
Kristín Ingadóttir 0/1
Sigrún Sigmundsdóttir 0/1
Refsingar: 6 mínútur 
Varin skot: 28