Karfan er tóm.
Líkt og í fyrri viðureignum gegn Birninum var mikil spenna og hraði frá upphafi til enda. Við vorum yfir 3 - 2 þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum, en þá jafnaði fyrirliðinn Gunnar Guðmundsson leikinn okkur til mikillar armæðu. Þrátt fyrir góðar tilraunir í lokin tókst ekki að tryggja sigurinn og því varð að framlengja. Mörkin í venjulegum leiktíma skoruðu Orri Blöndal, Gunnar Darri Sigurðsson og Jón Gíslason.
Í framlengingu spila 4 á 4 í tíu mínútur þar sem gullmark ræður úrslitum. Sett voru saman þrjú sóknarpör, Jón og Stebbi, Siggi og Orri, og Gunnar Darri og Jói. Það hjálpaði liðinu inn í framlenginguna að Björninn fékk tveggja mínútna brottvísun á lokamínútu leiksins og því byrjuðum við 4 á 3.
Við nýttum liðsmuninn vel og á 2. mínútu framlengingar skoraði Orri Blöndal gullmarkið eftir að hafa fylgt vel eftir frákasti eftir skot frá varnarlurknum Rúnari Rúnarssyni frá bláu línunni.
Með þessum sigri færðumst við skrefinu nær því markmiði að tryggja okkur sæti í úrslitum og sitjum nú áfram á toppi deildarinnar með 22 stig, Björninn með 16 og SR með 19. Björninn og SR mætast á þriðjudaginn og það verður mikilvægur leikur um baráttuna um sæti í úrslitakeppninni, því ef Björninn vinnur eru liðin jöfn með 19 stig og SR með einn leik til góða.