Silvía Rán með fjögur í öruggum sigri SA

Mynd: Ásgrímur Ágústsson (12.02.2013)
Mynd: Ásgrímur Ágústsson (12.02.2013)


SA sigraði lið SR nokkuð auðveldlega á Íslandsmótinu í íshokkí kvenna í Laugardalnum í gærkvöldi. Nýr markvörður steig í markið hjá SA. Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði fjögur mörk og átti þrjár stoðsendingar.

Elise Marie Väljaots, sem verðlaunuð var á árshátíð SA sl. vor sem mesta fyrirmyndin í mfl. kvenna, hefur hingað til leikið sem útileikmaður, en nýlega hóf hún einnig að æfa sem markvörður og þreytti frumraun sína í keppnisleik í þeirri stöðu í gærkvöldi.

SA hafði nokkra yfirburði í leiknum, sem til dæmis má sjá á fjölda skota á mark. SA átti 43 skot á mark, en SR 16. Strax á fyrstu þremur mínútunum náði SA tveggja marka forystu með mörkum frá Guðrúnu Marín Viðarsdóttur og Silvíu Rán Björgvinsdóttur. SR minnkaði muninn og jafnaði síðan áður en fyrsti leikhluti var hálfnaður, en Harpa María Benediktsdóttir, Silvía Rán og Guðrún Katrín Gunnarsdóttir bættu þá við þremur mörkum áður en SR tókst að skora þriðja markið. Fjörugur fyrsti leikhluti með samtals átta mörkum, staðan 3-5 eftir fyrsta leikhluta.

Silvía Rán bætti við sínu þriðja marki undir miðjan annan leikhluta og aftur svöruðu SR-ingar og minnkuðu muninn. Berglind Rós Leifsdóttir skoraði sjöunda mark SA og enn svöruðu SR-ingar. Harpa María skoraði þá sitt annað mark og Sunna Björgvinsdóttir jók forystuna í fjögur mörk, 5-9, á lokamínútu annars leikhluta.

Enn halda ungu leikmennirnir áfram að gera það gott því það var ekki aðeins hin fjórtán ára gamla Silvía Rán sem var atkvæðamest heldur skoruðu tvær í liði SA sitt fyrsta meistaraflokksmark, þær Guðrún Katrín og Berglind Rós.

Þriðji leikhlutinn var svo eign SA, Guðrún Marín skoraði þá tvö mörk, Sunna eitt og Silvía Rán sitt fjórða mark. Lokatölur: SR - SA 5-13 (3-5, 2-4, 0-4).

Atvikalýsing (á vef ÍHÍ)

Mörk/stoðsendingar
SR
Flosrún Vaka Jóhannesdóttir 3/2
Karen Þórisdóttir 1/1
Hjördís Albertsdóttir 1/0
Kristín Ómarsdóttir 0/1
Jóhanna Bjarnadóttir 0/1 
Varin skot: 30
Refsimínútur: 0 

SA
Silvía Rán Björgvinsdóttir 4/3
Guðrún Marín Viðarsdóttir 3/0
Sunna Björgvinsdóttir 2/1 
Harpa María Benediktsdóttir 2/0
Berglind Rós Leifsdóttir 1/0
Guðrún Katrín Gunnarsdóttir 1/0
Lísa Ólafsdóttir 0/2 
Bergþóra Heiðbjört Bergþórsdóttir 0/1 
Kristín Björg Jónsdóttir 0/1 
Varin skot: 11
Refsimínútur: 2 

Með sigrinum komst SA upp að hlið Bjarnarins á toppi deildarinnar með 9 stig að loknum fjórum leikjum. Næsti leikur SA verður gegn Birninum í Egilshöllinni laugardaginn 9. nóvember.