Skautafélag Akureyrar með 3 gullverðlaun á Vetrarmóti ÍSS og nýtt Íslandsmet

Júlía Rós í Advanced Novice (mynd: iceskate.is)
Júlía Rós í Advanced Novice (mynd: iceskate.is)

Keppendur Skautafélags Akureyrar stóðu sig frábærlega á Vetrarmóti ÍSS sem fram fór í Egilshöll nú um helgina. Stúlkurnar röðuðu sér í toppsætin í elstu keppnisflokkunum og komu með gullverðlaun og silfurverðlaun í Basic Novice, gullverðlaun í Advanced Novice og gull og silfurverðlaun í Junior. Þá bætti Aldís Kara Bergsdóttir stigametið á Íslandi enn einu sinni.

Berglind Inga Benediktsdóttir frá Skautafélagi Akureyrar sigraði í Basic Novice með 25.27 stig og í öðru sæti var Sædís Heba Guðmundsdóttir með 24.11 stig. Júlía Rós Viðarsdóttir skautaði villulaust prógram bæði í stutta og frjálsa í Advanced novice og fékk samanlagt 79.18 stig og sem skilaði henni gullverðlaunum og hún heldur því áfram að bæta sig. Í Junior flokknum var frábær keppni þar sem Aldís Kara og Marta María börðust um gullverðlaunin en báðar hafa þær skautað á Grand Prix í vetur. Aldís náði 44.95 stigum í stutta prógraminu og var í efsta sæti á fyrri keppnisdeginum en Marta María var með 39.44 stig í öðru sæti. Á öðrum keppnisdegi skautaði Marta flott prógram og með öllum spinnum á level 4 og fékk 70.12 stig fyrir. Aldís Kara stökk tvo tvöfalda Axel, tveimur þreföldum Salchowum og einu þreföldu Toeloop og fékk 82.74 stig sem skilaði henni gullverðlaunum með nýju Íslandsmeti uppá hvorki meira né minna en 127.69 stig. Marta María var í öðru sæti með 109.56 stig. Það er því greinilegt að skautaíþróttin er á mikilli siglingu um þessar mundir en stúlkurnar okkar bæta sig gríðarlega hratt og bæta stigametin á nánast hverju einasta móti. Við óskum keppendum okkar öllum til hamingju með glæsilegan árangur og þjálfara þeirra henni Darju fyrir frábært starf.

 

 

Heimild: Skautasamband Íslands (www.iceskate.is)