Karfan er tóm.
Björninn er nú hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppnina og leikurinn í kvöld var gríðarlega mikilvægur fyrir þá. Þetta er 19. tímabilið sem Björninn teflir fram liði og hafa þeir aldrei orðið Íslandsmeistarar en þrisvar komist í úrslitakeppnina. Fyrst árið 1995 en þá voru í liðinu einhverjir Kanar af vellinum, Jouni Tourmanen og gott ef Diddó var ekki með þeim líka. Í þá daga þurfi tvo sigra til að krækja í titilinn, SA vann báða leikina þann fyrri 18 - 7 og þann seinni 11 - 5. Í annað skiptið komust þeir í úrslit árið 1997 þegar Clark McCormick spilaði með þeim. Árið 1998 sameinuðust svo SR og Björninn það var árið sem skautahöllin var byggð í Laugadalnum og því tímabilið óvenju stutt. Í síðasta skiptið sem Björninn komst í úrslit var árið 2001 þegar við unnum þá í gríðarlega spennandi úrslitakeppni, þar sem Björninn vann fyrstu tvo leikina en SA síðustu þrjá eins og frægt er orðið. Þess má svo til gamans geta að SA hefur frá upphafi spilað til úrslita og unnið titilinn 13 sinnum en SR hefur unnið 5 sinnum.
Ekkert lið er öruggt í úrslitin og leikurinn um helgina hefur mikið að segja um framhaldið. Vinni SR verða SA og SR jöfn að stigum með 22 og Björninn þremur stigum á eftir þegar tveir leikir eru eftir á lið. Vinni SA hins vegar leikinn tryggjum við okkur sæti í úrslitum, en Björninn og SR munu þá heyja mjög harða baráttu um hitt sætið. Það má því með sanni segja að spennan er engu minni nú en í úrslitakeppni þannig að næstu vikur verða í meira lagi taugatrekkjandi.
...en mikið er það nú dásamlega skemmtileg tilbreytni að sjá spennu í undankeppninni. Þetta mun vera í fyrsta skiptið á þessum 19 árum sem öll lið hafa haft möguleika á sæti í úrslitum þegar svona langt er liðið á tímabilið.