Tap gegn Birninum eftir góða byrjun

Myndir: Sigurgeir Haraldsson (okt. 2011)
Myndir: Sigurgeir Haraldsson (okt. 2011)


Víkingar byrjuðu Íslandsmótið af krafti og náðu þriggja marka forskoti gegn Birninum í fyrsta leik Íslandsmótsins, en Bjarnarmenn svöruðu með fjórum mörkum. Lokatölur 4-3.

Keppnin í meistaraflokki karla á Íslandsmótinu í íshokkí hófst sl. laugardag þegar Víkingar heimsóttu Íslandsmeistara Bjarnarins í Egilshöllina.

Sprækir Víkingar
Víkingar komu mun sterkari til leiks og spiluðu mjög vel í fyrsta og fram í annan leikhluta. Þeir létu pökkinn ganga vel manna á milli í fyrsta leikhlutanum og náðu fljótt forystunni, strax á annarri mínútu þegar Sigurður Sigurðsson skoraði eftir stoðsendingu frá Orra Blöndal. 

Áfram höfðu okkar menn yfirburði á svellinu, spiluðu eins og englar og þegar tæplega fjórtán mínútur voru liðnar af leiknum skoraði Guðmundur S. Guðmundsson annað mark Víkinga.

Víkingar hófu annan leikhlutann af sama krafti og náðu áfram sama góða spilinu og í fyrsta leikhluta. Það skilaði marki strax eftir tæplega þriggja mínútna leik þegar Jóhann Leifsson lagði pökkinn snyrtilega í markið þegar hann komst einn á móti markmanni eftir stoðsendingu frá Lars Foder og Andra Má Mikaelssyni.

Björninn rumskar
Þegar leið á annan leikhluta fór hins vegar að halla undan fæti, það hægðist á leik okkar manna um leið og samspilið minnkaði og einstaklingsframtakið varð meira áberandi. Það virtist jafnframt koma niður á liðsandanum og SA-vélin hikstaði á sama tíma og Bjarnarmenn rumskuðu. 

Bjarnarmenn minnkuðu muninn skömmu fyrir miðjan annan leikhluta. Þar var að verki Andri Helgason með stoðsendingu frá Brynjari Bermann. Matthías S. Sigurðsson minnkaði svo muninn í 2-3 með marki þegar um sex mínútur voru eftir af öðrum leikhluta, með stoðsendingu frá Daniel Kolar og Birki Árnasyni.

Það seig svo enn á ógæfuhliðina hjá okkar mönnum í þriðja leikhlutanum. Víkingar áttu í vandræðum með að koma sér í færi og skora, en á sama tíma keyrðu Bjarnarmenn hins vegar vel í gang, voru greinilega staðráðnir í því að sleppa stigunum ekki burt úr höfuðborginni.

Ólafur Hrafn Björsson jafnaði í 3-3 þegar tæplega sex mínútur voru eftir af leiknum og Úlfar Jón Andrésson kom Birninum í 4-3 eftir stoðsendingu Hjartar Geirs Björssonar innan við mínútu eftir jöfnunarmarkið.

Víkingum gekk illa að skora í síðari hluta leiksins og jafnvel þegar þeir voru fimm á þrjá, síðan sex á þrjá eftir að markmanni var skipt út í lok leiksins, tókst þeim ekki að skora.

Niðurstaðan var því 4-3 tap gegn Birninum í fyrsta leik Íslandsmótsins.

Tölfræðin
Víkingar
Sigurður Sigurðsson 1/0
Guðmundur S. Guðmundsson 1/0
Jóhann Leifsson 1/0
Orri Blöndal 0/1
Steinar Grettisson 0/1
Lars Foder 0/1
Andri Már Mikaelsson 0/1

Björninn
Úlfar Jón Andrésson 1/1
Andri Helgason 1/0
Matthías Skjöldur Sigurðsson 1/0
Ólafur Hrafn Björnsson 1/0
Daniel Kolar 0/2
Birgir Hansen 0/1
Brynjar Bergmann 0/1
Birkir Árnason 0/1
Hjörtur Geir Björnsson 0/1 

Aðrar tölfræðiupplýsingar má sjá í leikskýrslunni sjálfri - smellið hér.

Myndir Sigurgeirs Haraldssonar eru úr leik Víkinga og Bjarnarins í Skautahöllinni á Akureyri í október 2011.