Tvenn gullverðlaun á Haustmóti ÍSS

Mynd: Ásgrímur Ágústsson (01.04.2012)
Mynd: Ásgrímur Ágústsson (01.04.2012)


SA-stelpur unnu til sex verðlauna á Haustmóti ÍSS sem fram fór í Skautahöllinni á Akureyri um helgina.

Framkvæmd mótsins gekk eins og í sögu og sagðist Iveta Reitmayerova, yfirþjálfari Listhlaupadeildar, ánægð með helgina því stelpurnar hafi staðið sig með mikilli prýði. Litlu munaði að gullverðlaunin yrðu fleiri því í nokkrum flokkum munaði mjög litlu á efstu sætunum.

Í stúlknaflokki A (Advanced Novice) náðist tvöfaldur SA sigur. Elísabet Ingibjörg Sævarsdóttir sigraði með 68.00 og Hrafnhildur Ósk Birgisdóttir varð önnur með 64.14 stig. Sara Júlía Baldvinsdóttir varð í sjöunda sæti, Hulda Dröfn Sveinbjörnsdóttir í áttunda og Arney Líf Þórhallsdóttir í níunda.

Í flokki 12 ára og yngri A náði Emilía Rós Ómarsdóttir silfrinu með 26.52 stig, aðeins 0.75 stigum á eftir sigurvegaranum.

Marta María Jóhannsdóttir sigraði örugglega í flokki 8 ára og yngri A, fékk 15.80 stig. Nadia Farajsdóttir Swaiki varð í þriðja sæti með 12.97 stig. (Myndina hér til vinstri tók Donni af Mörtu á Íslandsmóti ÍSS 2011).

Í stúlknaflokki B lenti Harpa Lind Hjálmarsdóttir í 8. sæti með 14.72 stig.

Pálína Höskuldsdóttir fékk silfurverðlaun í flokki 12 ára og yngri B, fékk 18.66 stig, og var aðeins 0.03 stigum á eftir sigurvegaranum.

Aldís Kara Bergsdóttir vann einnig silfurverðlaun, en hún keppir í flokki 10 ára og yngri B. Hún hlaut 14.37 stig og var aðeins 0.08 stigum á eftir sigurvegaranum.

Í flokki 8 ára og yngri varð Rebekka Rós Ómarsdóttir í fimmta sæti með 7.97 stig.

Öll úrslit og einkunnir má finna á upplýsingasíðu mótsins á nýjum vef Skautasambandsins, skautasamband.is