Uppgangur í kvennahokkí

50 SA konur 2010
50 SA konur 2010
Mikill uppgangur hefur verið í kvennahokkí síðustu misseri hér á Akureyri og nú er svo komið að íshokkíkonur nálgast það að vera þriðjungur af iðkendum hokkídeildar SA.  SA byrjaði með kvennalið árið 2000 og síðan þá hefur verið stöðugur vöxtur, ekki síst þó síðustu ár eftir að Sarah Smiley var ráðinn til félagsins sem þjálfari. 

SA tefldi fram tveimur kvennaliðum í meistaraflokki kvenna í vetur sem skiptist í eldri og yngri leikmenn, en auk þess er lið heldri kvenna sem nefnist Valkyrjurnar.  Í yngri flokkum æfa stelpur og strákar saman og nokkrar stelpur hafa keppt með strákunum upp í þriðja flokk.


Fjölgun liða í kvennaflokki er mikilvægt skref fyrir frekari vöxt kvennahokkís, en reglugerðarbreytingar Íshokkísambandsins fyrir þetta tímabil gerði það mögulegt fyrir félögin að tefla fram tveimur liðum.  Þriggja liða deild kallaði á úrslitakeppni og það er óhætt að segja að kvennahokkí hafi aldrei áður fengið eins mikla athygli í fjölmiðlum og á nýliðnu móti og er þar fyrst og fremst að þakka úrslitakeppninni.  Þegar um tvö lið er að ræða og aðeins deildarkeppni, getur komið upp sú staða að lið tryggir sér Íslandsmeistaratitilinn snemma á tímabili, líkt og gerst hefur nokkrum sinnum hér hjá okkur.

Vonandi getur Björninn bætt við öðru liði fyrir næsta vetur auk þess sem vonir standa til þess Skautafélag Reykavíkur verði komið með nógu marga leikmenn til þess að koma með lið inn í mótið.


Fyrr í vetur fór fram kvennamót hér á Akureyri hvar þátttakendur frá liðunum þremur mættu til leiks og var mótið þáttur í Vetraríþróttahátið 2010.  Að því tilefni var tekin meðfylgjandi hópmynd af 50 SA-konum, sem óhætt er að kalla mikil tímamót.