Karfan er tóm.
Íslandsmótið í íshokkí hófst í gærkvöldi hér á Akureyri þegar Björninn hingað norður með bæði karla og kvennaliðin sín. Karlarnir riðu á vaðið í leik sem var lítið fyrir augað og greinilegt að menn eru enn ryðgaðir eftir sumarið. Björninn skoraði fyrstu tvö mörkin í „power play“ áður en Andri Freyr Sverrisson og minnkaði muninn fyrir Víkinga eftir sendingu frá Josh, en staðan var því 2 – 1 fyrir gestina eftir fyrsta leikhluta.
Strax upphafi 2. lotu jafnaði Orri Blöndal metin fyrir Víkinga eftir mikið einstaklingsframtak frá norðri til suðurs, stranda á milli. Björninn
náði þó aftur forystunni þegar nokkrar sekúndur voru eftir af lotunni og enn voru Víkingar komnir undir. Andri Mikaelsson jafnaði svo leikinn aftur
eftir gott gegnumbrot eftir stungusendingu frá Josh og bjartsýnin jókst að nýju í höllinni. Sigurmarkið skoraði svo Ólafur
Björnsson fyrir Björninn þegar Víkingar voru einum fleiri um miðbik lotunnar og þrátt fyrir nokkuð harða hríð að marki Bjarnarins
á lokamínútunum vildi pökkurinn ekki inn og tap í fyrsta leik staðreynd.
Strax á eftir karlaleiknum hófst kvennaleikurinn. SA teflir fram tveimur liðum bæði í karla og kvennaflokki líkt og síðast en nafni Valkyrja hefur verið breytt í Ásynjur. Ástæðan fyrir þessari nafnabreytingu er fyrst og fremst sú að Valkyrjunafnið fengu þær í raun að láni í fyrra frá heldri-kvennaliði SA sem síðan hefur valdið töluverðum ruglingi innan félagsins. Yngra liðið heitir eftir sem áður Ynjur. Bæði liðin, Ásynjur og Björninn er með nýja þjálfara. Ingvar Þór Jónsson er farinn að þjálfa Ásynjur og Ríkharður Eiríkur Tahtinen hefur snúið sér aftur að þjálfun og er tekinn við kvennaliði Bjarnarins.
Ásynjum brást ekki bogalistin og unnu góðan 5 – 2 sigur þar sem fyrrum þjálfari þeirra, hin nú íslenska Sarah Smiley, fór
fyrir sínu liði. Ásynjur hófu leikinn af krafti og skoruðu tvö fyrstu mörkin með skömmu milli bili á 16. og 17.
mínútum leiksins en þar voru á ferðinni Bergþóra Bergþórsdóttir óstudd og Þorbjörg Geirsdóttir eftir sendingu
frá Guðrúnu Blöndal. Flosrún Vaka minnkaði svo muninn fyrir lok lotunnar.
Eina mark 2.lotu átti Guðrún Marín Viðarsdóttir og staðan var því 3 – 1 þegar 3. lota hófst. Í síðustu
lotunni bættu Ásynjur við tveimur mörkum og þar var í bæði skiptin hún Sarah á ferðinni og naut í fyrra markinu aðstoðar
frá Patriciu Ryan en seinna markið átti hún óstudd. Steinunn Sigurgeirsdóttir skoraði eitt mark fyrir Björninn eftir sendingu frá
Flosrúnu en lokastaðan 5 – 2.
Tímabilið hefur ekki áður byrjað svona snemma en dagskrá vetrarins er mjög þétt og hver vika skipulögð fram á vorið. Það er spennandi hokkívetur framundan og við ætlum okkur stóra hluti.