Úrslitakeppnin í krullu: Fífurnar í úrslitaleikinn gegn Mammútum

Fífurnar leika um gullið gegn Mammútum. Mynd: HI
Fífurnar leika um gullið gegn Mammútum. Mynd: HI


Fífurnar sigruðu Víkinga 6-3 í undanúrslitum og leika til úrslita um Íslandsmeistaratitil í fyrsta sinn, þar sem liðið mætir Mammútum. Víkingar og Fálkar spila um bronsið. Úrslitaleikirnir hefjast kl. 18 laugardaginn 31. mars.

Fífurnar náðu forystu í upphafi, Víkingar jöfnuðu en Fífurnar bættu við og staðan orðin 4-1 þeim í vil þegar leikurinn var hálfnaður. Fífurnar bættu svo við einu stigi, en Víkingar tóku eitt til baka í sjöttu og sjöundu umferð. Staðan var því orðin 5-3 fyrir lokaumferðina og þurftu Víkingar því að skora tvö stig til að knýja fram framlengingu, eða þrjú til að vinna. Áður en fyrirliði Fífanna sendi síðasta stein leiksins voru Víkingar með þrjá steina inni og hefðu því unnið miðað við þá stöðu, en síðasti steinninn sneiddist af steini Víkinganna og inn á miðjuna - eitt stig til Fífanna og þar með sigur í leiknum. Úrslit: Víkingar - Fífurnar 3-6.

Úrslitaleikirnir fara fram laugardaginn 31. mars og hefjast kl. 18.

1.-2. sæti: Mammútar - Fífurnar, Mammútar hafa val um síðasta stein, Fífurnar hafa val um lit.
3.-4. sæti: Víkingar - Fálkar, Víkingar hafa val um síðasta stein, Fálkar hafa val um lit. 

Öll úrslit mótsins má finna í excel-skjali hér.