Karfan er tóm.
Víkingar mæta Birninum í karlaflokki kl. 16.30 í dag og SA mætir Birninum í kvennaflokki um kl. 19. Báðir leikirnir skipta gríðarlegu máli upp á framhaldið, titla og oddaleiki í úrslitakeppninni.
Vegna leikjanna er styttur almenningstími í dag, opið kl. 13-16.
Víkingar og Björninn berjast nú um deildarmeistaratitilinn og oddaleiksréttinn í úrslitakeppninni. Björninn er nú á toppnum með 35 stig, en hefur leikið einum leik meira en Víkingar sem eru aðeins stigi á eftir Birninum. Liðin mætast í Skautahöllinni á Akureyri í dag, og svo aftur í Egilshöllinni eftir viku. Lokaleikur Víkinga verður síðan gegn SR þriðjudagin 11. mars.
Leikur SA og Bjarnarins er lokaleikur deildarkeppninnar í meistaraflokki kvenna. Björninn er á toppnum, þremur stigum á undan SA, þannig að SA verður að vinna leikinn til að ná Birninum að stigum. En það er ekki nóg, því SA þarf að vinna með átta marka mun til að ná efsta sætinu og þar með deildarmeistaratitlinum og oddaleiksrétt í úrslitakeppninni. Úrslitakeppni kvenna hefst fimmtudaginn 6. mars.
Dagskráin er svona:
Kl. 16.30, mfl. karla: Víkingar - Björninn
Strax að fyrri leik loknum, líklega um kl. 19.00, mfl. kvenna: SA - Björninn
Það er því alveg ljóst að leikir dagsins eru mikilvægir og eins og alltaf áður getur öflugur stuðningur áhorfenda gert gæfumuninn - á báðum leikjunum! Akureyringar eru því hvattir til að mæta í Skautahöllina á Akureyri í dag og kvöld.
En ef þú átt alls ekki heimangengt geturðu fylgst með á SA TV.