Víkingar deildarmeistarar!

Ingvar Þór Jónsson þjálfari SA. Mynd: Sigurgeir H.
Ingvar Þór Jónsson þjálfari SA. Mynd: Sigurgeir H.


Víkingar enduðu deildarkeppnina í meistaraflokki karla á Íslandsmótinu í íshokkí með viðeigandi hætti, skoruðu í markvarðarlaust mark Bjarnarins þegar hálf mínúta var eftir af leiknum. Lokatölur: Björninn - Víkingar 3-4.

Fyrir leikinn var ljóst að Bjarnarmenn yrðu að sigra ef þeir ætluðu sér að vinna deildina og ná sér í oddaleiksréttinn í úrslitakeppninni, en Víkingum nægði jafntefli. Það hafa því eflaust margir búist við miklum átakaleik og mikilli umferð í refsiboxinu, en hokkíið hafði sigur í dag. Leikurinn var prúðmannlega leikinn og til marks um það nefna að Bjarnarmenn fengu 6 mínútur í refsingu og Víkingar 4 mínútur.

Bjarnarmenn komust yfir í fyrsta leikhluta með marki Brynjars Bergmann, en Lars Foder jafnaði leikinn með stoðsendingu frá Stefáni Hrafnssyni og Sigurður Sigurðsson kom Víkingum í 1-2 um miðjan fyrsta leikhluta.

Daniel Kolar jafnaði leikinn snemma í öðrum leikhluta en Sigurður Reynisson kom Víkingum í 2-3. Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum jafnaði Hjörtur Björnsson leikinn eftir að nokkuð hafði legið á okkar mönnum.

Spennandi í lokin
Víkingar misstu Lars Foder í refsiboxið þegar 3 mínútur og 40 sekúndur voru eftir af leiknum og staðan 3-3. Undir lokin gripu Bjarnarmenn til þess ráðs að skipta markverði sínum út fyrir útispilara, enda urðu þeir að vinna leikinn til að ná efsta sætinu. Víkingar vörðust og vörðust, náðu að koma pökknum út úr varnarsvæðinu og þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum skoraði Ingvar Þór Jónsson, þjálfari og varnarmaður Víkinga, fjórða mark liðsins í markvarðarlaust mark Bjarnarins. Minnstu munaði reyndar að varnarmaður Bjarnarins næði að verja skot hans.  

Fréttaritari átti þess ekki kost að horfa á leikinn og áttaði sig reyndar ekki á því fyrr en um miðjan þriðja leikhluta að leikurinn var í beinni útsendingu í geginum heimasíðu Bjarnarins. Er hér með beðist afsökunar á því að sú útsending skyldi ekki auglýst á heimasíðu okkar né á Facebook. En miðað við þær örfáu mínútur sem fréttaritari sá af leiknum virtist Ómar Smári Skúlason eiga stórleik í markinu, en hann spilaði í dag sinn annan leik eftir að hafa verið frá vegna meiðsla síðan í byrjun janúar.

Töpuðu síðast í október
Víkingar eru semsagt deildarmeistarar í meistaraflokki karla í íshokkí og eiga oddaleiksréttinn í úrslitakeppninni sem framundan er gegn Birninum. Þegar upp er staðið hafa Víkingar 41 stig, en Björninn 35. Glæsilegur árangur hjá okkar mönnum sem töpuðu síðast leik 16. október þegar þeir mættu Birninum í Skautahöllinni á Akureyri.

Mörk/stoðsendingar
Björninn
Daniel Kolar 1/1
Brynjar Bergmann 1/0
Hjörtur Björnsson 1/0
Sigurður Árnason 0/1
Sergei Zak 0/1
Ólafur Björnsson 0/1
Úlfar Jón Andrésson 0/1
Refsingar: 6 mínútur

Víkingar
Lars Foder 1/1
Ingvar Þór Jónsson 1/1
Sigurður Sigurðsson 1/0
Sigurður Reynisson 1/0
Stefán Hrafnsson 0/2
Refsingar: 4 mínútur

Það er deginum ljósara að framundan er æsispennandi úrslitakeppni þessara liða um Íslandsmeistaratitilinn 2013. Leikirnir fara fram á tímabilinu 18.-26. mars.

Sasport.is óskar Víkingum til hamingju með þennan frábæra árangur og óskar þeim góðs gengis í úrslitakeppninni. Hér skal enn einu sinni ítrekað að í úrslitaleikjum eins og framundan eru skiptir stuðningur áhorfenda máli og getur jafnvel skipt sköpum þegar upp er staðið. Það er því  gríðarlega mikilvægt að Akureyringar troðfylli Skautahöllina á Akureyri og hreinlega öskri Íslandsmeistaratitilinn aftur heim til Akureyrar.