Víkingar töpuðu fyrir Húnum

Ljósmynd:  Sigurgeir Haraldsson
Ljósmynd: Sigurgeir Haraldsson

Það fór ekki mikið fyrir meistaratöktum hjá Víkingum í gærkveldi þegar þeir máttu sín lítils gegn Húnum í stærsta ósigri liðsins í vetur.  Reyndar fór rafmagnið af Skautahölllinni og öllum Innbænum þegar 7 mínútur voru eftir af leiknum en úrslitin voru ráðin og harla ólíklegt að kraftaverk myndu eiga sér stað á endasprettinum.  Húnar bæði byrjuðu og enduðu leikinn betur en Víkingar, komust í 5 - 0 áður en gestgjafarnir komust á blað.

Á meðan allt fór inn hjá Húnum gekk hvorki né rak hjá Víkingum og þrátt fyrir nokkrar ágætar sóknir þá var heppnin ekki með liðinu, mikið um stangarskot auk þess sem Styrmir í marki Húna stóð sig með mikilli prýði.

Þetta tap kemur liðinu mjög illa í kapphlaupinu um sæti í úrslitakeppninni og liðið náði ekki að fylgja eftir góðum árangri Jötna gegn SR á dögunum.  Hvert lið spilar 16 leiki í undankeppninni og nú eiga Víkingar eftir 6 leiki og eru með 21 stig, SR eiga eftir 7 leiki og eru með 20 stig og Björninn á eftir 4 leiki og er með 28 stig.  Það er því ljóst að mikil spenna verður á endasprettinum því nú kemur hlé í Íslandsmótinu á meðan U20 liðið keppir á HM, en svo tekur við stíf dagskrá fram að úrslitum.

Að lokum má svo til gamans geta þess að Snorri Gunnar Sigurðarson mætti og spilaði með Húnum í gær en hann er faðir Styrmis í markinu.  Það getur verið að þeir feðgar hafi spilað saman áður í deildinni en þetta er merkilegur viðburður engu að síður.  Það er líklegt að þetta séu einu feðgarnir sem spilað hafa saman í Íslandsmóti hér, þó gæti verði að Steinsen feðgarnir hafi gert það hér á árum áður.  Lesendur mega gjarnan senda mér línu um þetta hafi þeir frekar upplýsingar.