Ynjur knúðu fram sigur

Úr leik liðanna fyrr á tímabilinu (mynd: Elvar P.)
Úr leik liðanna fyrr á tímabilinu (mynd: Elvar P.)

Kvennalið SA áttust við í gærkvöldi, þriðjudagskvöld, í sjöunda skipti í vetur. Fyrir leikinn höfðu Ásynjur fimm stiga forskot á toppi deildarinnar með 28 stig en Ynjur með 23. Ynjur náðu að minnka forskotið í 2 stig og eiga leik til góða.

Anna Sonja opnaði markareikning Ásynja eftir rúmar tvær og hálfa mínútu þegar hún átti lúmskt langskot eftir stoðsendingu frá Thelmu. Ásynjur voru einni fleiri þegar markið kom. Nokkru síðar dólaði Sunna með pökkinn meðan stöllur hennar í Ynjum skiptu, sendi hann síðan snyrtilega á Silvíu sem var komin að bláu línunni sem svo kláraði dæmið og skoraði, glæsilegt mark eftir mjög gott samspil. Undir lok lotunnar laumaði svo Jónína pekkinum fyrir aftan Birtu í marki Ynja og staðan 2-1. Um mínútu síðar hirti Sarah pökkinn af Ynjum og brunaði upp svellið og skoraði. Ynjur náðu svo að minnka muninn þegar Ragnhildur skoraði snyrtilegt mark með stoðsendingu frá Berglindi og Silvíu. Staðan í lok fyrstu lotu 3-2.

Eftir rúmar þrjár mínútur af annarri lotu laumaði Silvía pekkinum í markið fram hjá Guðrúnu Katrínu og jafnaði, 3-3. Ásynjur komust þó fljótlega yfir aftur þegar Sarah átti lúmskt skot upp í netið. Ásynjur voru á þessum kafla miklu ákveðnari og spiluðu betur. Þegar tæpar fimm mínútur voru eftir af lotunni hirti Silvía pökkinn af Díönu systur sinni og þrumaði honum í markið. Staðan aftur jöfn, 4-4, en Birna kom Ásynjum strax yfir aftur þegar hún hirti pökinn nánast beint úr uppkasti og setti í markið. Silvía jafnaði svo aftur þegar fjórar sek. voru eftir af lotunni þegar hún þrusaði pekkinum í markið. Stoðsending Berglind. Staðan 5-5 í lok lotunnar.

Snemma í þriðju lotu kom Arndís Ásynjum enn yfir, einum leikmanni fleiri. Berglind Rós jafnaði svo fyrir Ynjur þegar lotan var rúmlega hálfnuð og stuttu síðar kom Apríl Mjöll þeim loks yfir þegar hún skoraði glæsilegt mark eftir stoðsendingu frá Berglindi. Ásynjur reyndu í lok lotunnar allt hvað þær gátu að jafna og tóku m.a. Guðrúnu Katrínu úr markinu en það varð bara til þess að Silvía skoraði í tómt markið þegar tæp mínúta var eftir af leiknum. Lokatölur 6-8 Ynjum í vil.

Bæði lið virtust koma svolítið þreytt til leiks enda margir leikmanna þeirra á landsliðsæfingu um síðustu helgi. Ynjur byrjuðu þó betur og mátti sjál snilldar samspil hjá þeim á köflum, en Ásynjur höfðu yfirhöndina. Enn og aftur eru það þó Ynjur sem ráða síðustu lotunni. Jussi Sipponen, þjálfari Ynja, var sáttur með stigin og sagði að nú þyrfti að undirbúa sig undir næsta verkefni sem er leikur gegn Reykjavíkurliðinu á föstudagskvöld í borginni. Bart Moran, þjálfari Ásynja, sagði að leikurinn hefði flætt vel í fyrstu tveimur lotunum en sú þriðja hefði verið sundurslitin af meiðslum, brotum og mörkum þannig að það hefði ekki verið fyrr en alveg undir lokin sem leikurinn fór að flæða aftur.

Silvía átti stórleik hjá Ynjum og skoraði 5 mörk. Apríl kom fantasterk inn líka og sem heild átti liðið frábæra spretti þó mistök hafi líka verið til staðar. Sarah var grimm hjá Ásynjum og liðið átti líka góða kafla saman.

Ynjur eiga eins og fyrr segir leik á föstudagskvöld í Egilshöll og má búast við að þær taki þar með forystuna í deildinni. SA liðin eiga eftir einn innbyrðis leik, 6. mars, sem verður þá hreinn úrslitaleikur um deildarbikarinn.

Mörk (stoðsendingar) Ásynja: Sarah 2, Anna Sonja 1 (1), Arndís 1 (1), Jónína 1, Birna 1, Thelma (1) og Eva (1)

Mörk (stoðsendingar) Ynja: Silvía 5 (1), Berglind 1 (3), Ragnhildur 1, Apríl 1 og Sunna (1).