Karfan er tóm.
Lið Skautafélags Akureyrar í meistaraflokki kvenna, Ynjur og Ásynjur, mættust í Skautahöllinni í gærkvöldi. Leikurinn var spennandi eins og allir leikir þessara liða, en það voru Ynjurnar, lið yngri leikmannanna, sem fór með sigur af hólmi í þetta sinn.
Fyrsta lota einkenndist af brottrekstrum þar sem Ynjur voru í refsiboxinu í samtals 8 mínútur og Ásynjur tvær. Önnur lota hófst á sömu nótum þar sem tvær Ynjustúlkur voru sendar í boxið. Jónína Margrét Guðbjartsdóttir kom svo Ásynjum yfir á 35. mínútu, með fallegu marki með stoðsendingu frá Rósu Guðjónsdóttur og Önnu Sonju Ágústsdóttur. Ynjur héldu áfram að heimsækja refsiboxið og Sarah Smiley, sem hefur þjálfað allar yngri stúlkurnar um lengri eða skemmri tíma, nýtti sér næstu yfirtölu og skoraði með aðstoð Arndísar Sigurðardóttur og Birnu Baldursdóttur. Ásynjur fóru því í seinna leikhléið með góða stöðu, tveggja marka forskot.
Ynjurnar komu hins vegar ákveðnar í lokalotuna og á stuttum tíma í upphafi hennar skoruðu þær þrjú mörk sem skiluðu þeim þremur stigum úr leiknum. Fyrsta markið skoraði Sunna Björgvinsdóttir án stoðsendingar á 43. mínútu, Berglind Rós Leifsdóttir átti næsta mark, sömuleiðis án stoðsendingar rúmum tveimur mínútum seinna og Silvía Rán Björgvinsdóttir innsiglaði sigurinn með aðstoð Sunnu, þremur mínútum seinna. Ynjurnar voru töluvert sterkari í síðustu lotunni og einnig mátti þá sjá þreytumerki á Ásynjunum. Sonja Johnson stóð í markinu hjá Ásynjum þar til Ynjurnar höfðu komist yfir en þá tók Guðrún Katrín Gunnarsdóttir við og stóð þar seinni helming lokalotunnar.
Þetta var fjórði leikur Ynjanna sem sitja nú á toppi deildarinnar með 9 stig. Ásynjur koma næstar með 6 stig en hafa leikið þrjá leiki. Nýir leikmenn hafa bæst í bæði lið og verður spennandi að sjá þær stúlkur spreyta sig í vetur.