Karfan er tóm.
Víkingar tryggðu sér Akureyrarmeistaratitilinn í krullu 2007 með jafntefli í lokaumferðinni - en reyndar hefði liðið unnið titilinn þótt það hefði tapað leiknum því aðalkeppinautarnir, Kústarnir töpuðu sínum leik og féllu í fjórða sætið. Víkingar enduðu með 12 stig, tveimur stigum meira en næstu lið. Skytturnar komust í annað sætið með 6-0 sigri á Görpum og Bragðarefir sönnuðu að maður á aldrei að gefast upp því liðið tapaði fjórum fyrstu leikjunum en vann síðan fimm í röð og nældi sér í bronsverðlaunin. Liðið endaði reyndar jafnt Skyttunum með 10 stig, eins og reyndar Kústarnir og Fífurnar en röð þessara liða réðist af árangri í skotkeppni í upphafi móts. Það er reyndar athyglisvert að liðin þrjú í efstu sætunum eiga það sameiginlegt að þau töpuðu síðast leik í nóvember.
Úrslit leikja í lokaumferðinni:
Skytturnar - Garpar 6-0
Víkingar - Mammútar 5-5
Bragðarefir - Riddarar 8-1
Svarta gengið - Norðan 12 6-5
Kústarnir - Fífurnar 2-7
Eins og áður hefur komið fram var mótið jafnt og spennandi allt til loka. Sigurliðið hlaut 12 stig, næst komu fjögur lið með 10 stig, þá eitt með 9 stig, þrjú lið með 8 stig og eitt með 5 stig. Úrslit allra leikja og endanlega röð liðanna má sjá í excel-skjali hér.
Í liði Akureyrarmeistara Víkinga eru þeir Gísli Kristinsson, Jóhann Björgvinsson, Jón Már Snorrason, Kristján Bjarnason og Rúnar Steingrímsson. Gísli var að vinna þennan titil í annað sinn en aðrir liðsmenn í fyrsta sinn. Krulluvefurinn óskar Víkingum til hamingju með titilinn.