Íslandsmótið í krullu - Mammútar sigruðu í uppgjöri toppliðanna

Mammútar eru nú öruggir með sæti í úrslitakeppninni. Sex lið bítast enn um hin þrjú sætin í úrslitunum.

Mammútar halda sínu striki, sigruðu Norðan 12 í uppgjöri efstu liðanna í gærkvöld og eru nú öruggir með eitt af tveimur efstu sætunum í undankeppninni og þar með öruggt sæti og tvö eða þrjú stig með sér inn í úrslitakeppnina. Víkingar sigruðu Fífurnar og var þetta fimmti sigur liðsins í röð. Víkingar skutust þar með upp í annað sætið en Norðan 12 féll niður í það þriðja. Skytturnar komust í fjórða sætið í gær með sigri á Fálkum. Auk þessara liða eiga Garpar, Bragðarefir og Riddarar möguleika á að komast í úrslitin. Riddarar eru nú í áttunda sæti en eiga eftir þrjá leiki og verða að vinna þá alla til að eiga möguleika. Fífurnar eru sæti ofar en Riddarar en eiga eftir tvo leiki og þeim dugir ekki að vinna þá báða til að komast í úrslitin.

Úrslitin í gærkvöld:

Skytturnar – Fálkar  6-3
Mammútar – Norðan 12  7-4
Fífurnar – Víkingar  3-9
Kústarnir - Garpar  6-6

Næstu leikir verða mánudagskvöldið 31. Mars en þá eigast við:

Braut 2: Riddarar – Svarta gengið
Braut 3: Fálkar – Kústarnir
Braut 4: Garpar – Mammútar
Braut 5: Bragðarefir – Fífurnar

Ísumsjón: Fálkar, Svarta gengið, Riddarar, Mammútar

Ætli Riddarar sér að halda lífi í voninni um sæti í úrslitum verða þeir að vinna Svarta gengið en Svarta gengið á ekki lengur möguleika á sæti í úrslitunum. Hvorki Fálkar né Kústarnir eiga möguleika á sæti í úrslitunum þannig að sá leikur skiptir ekki máli hvað það kapphlaup varðar. Garpar þurfa á sigri að halda en myndu þó eiga einhvern möguleika áfram þó þeir töpuðu eða gerðu jafntefli. Með sigri gætu Mammútar endanlega tryggt sér efsta sæti undankeppninnar og þrjú stig í pokahornið fyrir úrslitakeppnina. Bragðarefir verða að vinna eða gera jafntefli til að eiga áfram einhverja von á sæti í úrslitunum.

Flest liðin eiga nú eftir tvo leiki, nema hvað Riddarar og Svarta gengið eiga þrjá leiki eftir. Hér er til gamans yfirlit um leiki þeirra liða sem enn eiga möguleika á sæti í úrslitunum:

Mammútar: Garpar og Fálkar
Víkingar: Skytturnar og Riddarar
Norðan 12: Garpar og Fífurnar
Skytturnar: Víkingar og Svarta gengið
Garpar: Mammútar og Norðan 12
Bragðarefir: Fífurnar og Riddarar
Riddarar: Svarta gengið, Bragðarefir og Víkingar

Úrslit allra leikja og leikjadagskrá í excel-skjali hér.