Íslandsmótið í krullu - undankeppninni lokið

Norðan 12 tryggði sér fjórða sætið í undankeppninni og fer í úrslitin. Enginn af verðlaunahöfum síðasta árs kemst í úrslitakeppnina núna.

Það verða Mammútar, Víkingar, Garpar og Norðan 12 sem berjast um Íslandsmeistaratitilinn í krullu um helgina en úrslitakeppnin hefst á föstudagskvöld, verður framhaldið fyrir hádegi á laugardag og lýkur með úrslitaleikjum síðdegis á laugardag og verðlaunaafhendingu á Greifanum um kvöldið.

Lokaumferðin í undankeppninni fór fram í gærkvöld og þar sigruðu Mammútar Fálka og tryggðu sér efsta sætið. Víkingar sigruðu Riddara og enda í öðru sæti undankeppninnar. Garpar höfðu þegar lokið keppni og tryggt sér þriðja sætið í undankeppninni og Norðan 12 sigraði Fífurnar og endaði í fjórða sæti. Fyrir lokaumferðina áttu Skytturnar möguleika á fjórða sætinu ef Norðan 12 hefði tapað en það skipti þó í raun ekki máli því Norðan 12 sigraði í sínum leik og Svarta gengið malbikaði yfir Skytturnar, 9-0. Norðan 12 hélt því fjórða sætinu en Skytturnar sátu eftir í því fimmta. Með sigrinum fór Svarta gengið upp í áttunda sætið, uppfyrir Fífurnar og Riddara.

Lokaröð liðanna er athyglisverð ef miðað er við Íslandsmótið í fyrra og fyrri Íslandsmót. Aðeins tveir leikmenn í þeim fjórum liðum sem komin eru í úrslitakeppni Íslandsmótsins nú hafa orðið Íslandsmeistarar áður, þeir Gísli Kristinsson, fyrirliði Víkinga, og Hallgrímur Valsson, fyrirliði Garpa. Ekkert þeirra liða sem léku til úrslita um fjögur efstu sætin í fyrra komst í úrslitakeppnina núna, Víkingar og Mammútar enduðu í 7. og 8. sæti mótsins í fyrra eftir úrslitakeppni en Garpar og Norðan 12 enduðu í 8. og 9. sæti undankeppninnar og komust ekki í úrslit í fyrra. Kústarnir, núverandi Íslandsmeistarar, enduðu í sjöunda sæti, Bragðarefir, silfurliðið frá því í fyrra, enduðu í sjötta sæti, Fálkar unnu bronsið í fyrra en liðsmenn úr því liði léku með þremur liðum nú sem enduðu í 5., 9. og 11. sæti undankeppninnar. Fífurnar sem léku til úrslita um bronsið í fyrra enduðu í tíunda sæti undankeppninnar. Þetta sýnir einfaldlega enn einu sinni hve jöfn liðin í krullunni eru og að allir eiga möguleika.

Lokastaðan í undankeppninni:

1. Mammútar     17 stig
2. Víkingar         16 stig
3. Garpar           13 stig
4. Norðan 12      13 stig
5. Skytturnar      10 stig
6. Bragðarefir      10 stig
7. Kústarnir         9 stig  
8. Svarta gengið   7 stig
9. Riddarar          7 stig
10. Fífurnar          6 stig
11. Fálkar            2 stig

Ef skoðuð eru úrslit í innbyrðis viðureignum þessara fjögurra liða sem fara í úrslitin kemur í ljós að Mammútar unnu tvö af hinum liðunum en eini tapleikur þeirra var gegn Görpunum. Víkingar töpuðu fyrir Mammútum og Norðan 12 en unnu Garpa. Garpar unnu tvö af þessum liðum, Mammúta og Norðan 12, en töpuðu fyrir Víkingum. Norðan 12 sigraði Víkinga en tapaði gegn Mammútum og Görpum.   

Úrslit allra leikja og lokastaðan í undankeppninni - sjá excel-skjal hér.