Marjomótið í krullu: H2 sigraði

Verðlaunahafar (frá vinstri): Silfur - Rúnar Steingrímsson og Kristján Bjarnason (Víkingar), gull - …
Verðlaunahafar (frá vinstri): Silfur - Rúnar Steingrímsson og Kristján Bjarnason (Víkingar), gull - Hannella Matthíasdóttir og Haraldur Ingólfsson (H2) og brons - Hallgrímur Vallson og Davíð Valsson (Bræður).
H2 og Víkingar léku til úrslita á Marjomótinu í gærkvöld. H2 sigraði, 8-3. Liðsmenn fóru beint af botni Íslandsmótsins á topp Marjomótsins.

Átta lið tóku þátt í mótinu og var þeim skipt í tvo riðla. H2 og Víkingar unnu leiki sína í riðlakeppninni og mættust í úrslitaleik í gærkvöld.

Víkingar náðu að skora eitt stig í fyrstu og þriðju umferðinni en H2 svaraði með tveimur og þremur stigum í annarri og fjórðu og hélt síðan áfram að auka forskotið og þegar staðan var orðin 8-3 við lok sjöundu umferðar létu Víkingar gott heita. Það vekur einna helst athygli við sigur H2 á mótinu að annar liðsmanna, Hannella Matthíasdóttir hefur aðeins stundað krullu í um þrjá mánuði auk þess sem liðsmenn báðir voru í liði Fálka sem endaði í neðsta sæti á nýafstöðnu Íslandsmóti. Með Hannellu í liðinu er Haraldur Ingólfsson. Víkingar hafa verið á verðlaunapalli á flestum mótum vetrarins og unnu reyndar eitt þeirra en þurftu að sætta sig við silfrið nú en liðið sigraði einmitt á þessu móti í fyrra. Í liðinu nú voru þeir Rúnar Steingrímsson, Kristján Bjarnason og Gísli Kristinsson.

Í leik um bronsið mættust Bræður og ÓKEI. Bræður, lið skipað bræðrunum Davíð og Hallgrími Valssonum ásamt varamanninum Jóni Einari Jóhannssyni, sigraði í bronsleiknum og má segja að þar hafi þristar í þriðju og fimmtu umferð skipt sköpum. Lið ÓKEI, skipað þeim Ólafi Hreinssyni, Kristjáni Þorkelssyni og Eiríki Bóassyni varð að sætta sig við fjórða sætið.

SJÓN, Svanfríður Sigurðardóttir og Jón Grétar Rögnvaldsson, sigruðu Vorboðana Gunnar H. Jóhannesson og Pálma Þorsteinsson í leik um fimmta sætið. ACE, skipað þeim Árna Arasyni, Árna Grétari Árnasyni og Sigurði Aðils hlaut sjöunda sætið án þess að leika sérstaklega um það því vegna forfalla varð Double Trouble að gefa alla sína leiki nema þann fyrsta í riðlakeppninni.

Úrslitin:
1.-2. sæti: H2 - Víkingar  8-3
3.-4. sæti: ÓKEI - Bræður  5-9
5.-6. sæti: SJÓN - Vorboðarnir  8-6
7. sæti: ACE
8. sæti Double Trouble

Þetta er í annað sinn sem keppt er í svokallaðri tvenndarkeppni hér – eða mixed dobules eins og þetta fyrirkomulag heitir á ensku. Þetta er ný keppnisgrein á alþjóðavettvangi og fyrir rétt rúmum mánuði fór einmitt fram fyrsta heimsmeistaramótið í þessari grein. Ef til vill er efling þessarar greinar eitt af þeim skrefum sem taka þarf hér og stefna hátt.

Öll úrslit er að finna í excel-skjali hér.