Hér má lesa skýrslu stjórnar frá liðnum skautavetri. Skýrsla stjórnar LSA 2008
Stjórn LSA skautaárið 2007-2008Formaður:Hilda Jana Gísladóttir
Varaformaður:Kristín Kristjánsdóttir
Gjaldkeri:Kristín Þöll Þórsdóttir
Ritari:Wolfgang Frosti Sahr
Meðstjórnandi:Anna Guðrún Jóhannsdóttir
Meðstjórnandi:Allý Halla Aðalgeirsdóttir
Meðstjórnandi:Hulda Gestsdóttir
Mótsstjóri:Sigríður Stefanía Stefánsdóttir

Það leikur enginn vafi á því hvað stendur upp úr í starfi liðins skautavetrar. Það eru öll þau glöðu og heilbrigðu börn sem iðka iþróttina hjá deildinni. Bros þeirra sýnir okkur að við erum á réttri leið. Það var margt sem var mjög vel gert á liðnum vetri, en auðvitað eru enn fjölmörg sóknarfæri sem má nýta.

Við upphaf vetrar ákvað stjórnin að leggja sérstaka áherslu á að efla upplýsingaflæði milli stjórnar og foreldra. Stjórnin vann í samstarfi við yfirþjálfara að gerð nýliðabæklings, hann verður næstu árin endurnýjaður við upphaf hvers skautaárs og eiga allir nýjir iðkendur að fá slíkan bækling afhentan. Stjórnin hélt foreldrafund í upphafi vetrar, þar sem áhersla var lögð á að kynna komandi vetur og starf deildarinnar.

Stjórnin ákvað að koma á svokölluðu búnaðargjaldi. Það var sett á til þess að þeir foreldrar sem hugsanlega vildu frekar greiða fyrir störf deildarinnar, en að taka þátt í því sjálfir, væri gert það kleift. Í ljós kom að allir foreldrar iðkenda í 3-6. Hóp kusu að taka þátt og því enginn seðill sendur út.

Stjórnin stóð fyrir því að skautapeysur merktar félaginu voru teknar í notkun. Fyrirtækið Norðlenska, með vörumerkið Goða, auglýsir á peysunum. Þar að auki stóð deildin fyrir sölu á skautabuxum og skautatöskum. Yfirþjálfari hefur þess utan milligöngu um kaup á viðeigandi skautum.

Það er gleðilegt að kynna að deildin er að vaxa gríðarlega og eru nú skráðir 140 iðkendur við deildina, með örfáum undantekningum, eru allir iðkendur börn. Stjórnin vann þennan vetur að því að innleiða fjármál deildarinnar hjá bókhaldsfyrirtæki, sem nú sér um stærstu liði sem tengjast fjármálum deildarinnar, s.s. vinnu við fjárhagsáætlun, ársreikninga, launagreiðslur o.s.frv.Öskudagsnammisala er stærsta einstaka fjáröflun deildarinnar og gekk hún mjög vel á þessu ári. Fjölmargir eldri iðkendur tóku þátt í fjáröfluninni, auk foreldra.

Skautamaraþon fór fram nú um liðna helgi og gekk vel. 62 iðkendur tóku þátt í maraþoninu og enn fleiri tóku þátt í söfnun áheita. Skautabúðir verða haldnar síðar í sumar líkt og síðast liðið sumar. Síðasta vor fékst um ein miljón króna í áheitasöfnun vegna maraþonsins. Skautabúðirnar stóðu yfir í rúmar þrjár vikur og kostuðu þær iðkendur 35 þúsund krónur. 34 iðkendur tóku þátt, í búðunum voru tveir ístímar á dag, afístími og fræðsla. Viðvera var meðal iðkenda frá 9-15. 3 erlendir þjálfarar komu og þjálfuðu í búðunum.

Öll mót vetrarins gengu vonum framar, hvort heldur sem er skipulagið hér á Akureyri eða árangur iðkenda á mótum, sem var langt umfram væntingar.  Stjórnin úbjó reglur vegna keppnisferða á vegum deildarinnar. Helga Jóhannsdóttir, varð íslandsmeistari á liðnu ári, en hún tók einnig þátt í Norðurlandamóti fyrir hönd Íslands, sem og á Köbenhaven Trophy. Nú á deildin u.þ.b. 10 iðkendur sem keppa í A-styrkleikaflokki. Tveir þeirra komust í gegnum fyrsta prófið sem ÍSS leggur fyrir til að veita inngöngu í A-keppnisflokk (Basic test).

Deildin stóð fyrir tveimur sýningum á liðnu skautaári. Jólasýningin var með eindæmum glæsileg. Keyptur var rauður dregill á veggi, en deildin stefnir að því að fjármagna frekar í hlutum sem deildin telur æskilegt að hafa innan handar bæði við æfingar og sýningar.

Stjórn LSA lagði mikla áherslu á að senda dómara og þjálfara á námskeið á vegum deildarinnar, enda telur stjórnin gríðarlega mikilvægt að styðja upprennandi dómara og þjálfara til starfa. Tveir erlendir þjálfarar komu og voru hjá deildinni í skemmri tíma í vetur. Þær Ann Schelter og Sanna Maja. Það er mjög mikilivægt fyrir deildina að fá erlenda þjálfara til starfa a.m.k. þrisvar sinnum á ári.

Stjórn LSA vann að gerð brottfallsáætlunar á liðnum vetri, með það að markmiði að minnka brottfall úr deildinni. Áfram þarf að vinna að þeirri hugmyndafræði, þá sérstaklega hvernig deildin getur verið aðlaðandi fyrir eldri iðkendur sem ekki hafa hug á frekari keppni í greininni.  Þá vann stjórnin einnig að gerð jafnréttisáætlunar, sem hefur það að markmiði að fjölga drengjum sem iðka íþróttina við deildina. Stjórn LSA vann skipulega að því að fjölmiðlar fengju viðeigandi upplýsingar um starf deildarinnar, með það að markmiði að íþróttin sé sýnilegri. Þá vann stjórnin að því að uppfylla skilyrði fyrirmyndarfélags ÍSÍ. Stjórnin gerði skriflegan samning við Helgu Margréti Clarke, yfirþjálfara deildarinnar, þar sem hlutverk hennar var skilgreint. Þá hefur verið samið við hana um að taka að sér þjálfun næsta árs, en samið verður við hana á ársgrundvelli.

Þrátt fyrir að ýmislegt hafi gengið vel á liðnum vetri, telur stjórnin að ýmislegt megi gera enn betur. Leggja þarf sérstaka áherslu á það að lengja skautaárið, helst upp í 10 mánuði. Stjórnin telur nauðsynlegt að fá fleiri ístíma til að uppfylla þá eftirspurn sem er meðal yngri iðkenda, en einnig til þess að bjóða eldri iðkendur, sem hafa ekki hug á því að keppa áfram, aðstöðu til þess að iðka sína íþrótt. Stjórnin telur nauðsynlegt að bæta upplýsingaflæði á heimasíðu félagsins og fá myndasíðu í gagnið. Þá telur stjórnin nauðsynlegt að fulltrúar LSA, selji fleiri auglýsingar, bæði á veggi og ís, til að fjármagna starf deildarinnar. Þá telur stjórnin nauðsynlegt að bæta samskipti við tengdar stjórnir, s.s. ÍSS, ÍSÍ, aðalstjórn SA, foreldrafélag SA, ÍBA og ÍRA. Sérstaklega telur stjórnin að bætt samskipti foreldrafélags og stjórnar geti skilað betra starfi iðkendum til gagns. Á næsta ári telur stjórn LSA nauðsynlegt að semja fyrir allt árið við dómara til að vera á mótum á vegum deildarinnar. Nauðsynlegt er að koma á reglulegum fundum með þjálfurum deildarinnar. Þá telur stjórn LsA að fundargerðir stjórnar ættu að birtast á heimasíðu félagsins í framtíðinni. Stjórn LSA telur enn fremur nauðsynlegt að leita leiða, til að styðja við afreksiðkendur deildarinnar. Nauðsynlegt er að gera stórt átak ef deildin vill fjölga karlkynsiðkendum.

Þegar á heildina er litið var liðið skautaár vel heppnað, en nú þarf að halda áfram og bæta deildina enn frekar á næsta skautaári.                                          

f.h. LSA
Hilda Jana Gísladóttir, formaður.

____________________________________