2.fl. SA vann SR í kvöld 4 - 10

2. flokkur vann stórsigur á Skautafélagi Reykjavíkur í kvöld og er með fullt hús stiga eftir 1. umferð Íslandsmótsins í 2. flokki, rétt eins og meistaraflokkur.   Okkar menn óðu af stað með miklum látum og komust í 6 – 0 áður en SR-ingar náðu að svara fyrir sig.  Orri Blöndal fór á kostum og setti alls sex mörk og virðist vera farinn að blómstra sem sóknarmaður eftir að hafa spilað allan sinn feril sem varnarmaður. 

Andri Sverrisson var einnig atkvæðamikill og skoraði 3 mörk og Jóhann Leifsson var með 1.  Einhver veikindi voru hjá okkar liði og því hafði Josh Gribben þjálfari aðeins úr tveimur línum að moða en það virtist ekki koma að sök.  Eitthvað gaf liðið þó eftir á endasprettinum og jafnræði var með liðunum síðasta hálftímann í leiknum.

SR-ingar urðu fyrir mikilli blóðtöku í upphafi tímabils þegar þeirra sterkustu leikmenn héldu utan til Svíþjóðar, auk þess sem þeirra aðal-markamður Ævar Björnsson var ekki á milli stanganna í kvöld.  Engu að síður góður sigur og mjög ásættanleg byrjun á tímabilinu, þó gera megi ráð fyrir því að róðurinn þyngist þegar líða tekur á tímabilið.

 

Sjá einnig umfjöllun á vef SR, SMELLA HÉR.