Karfan er tóm.
Í dag mætast SA og Björninn í þriðja leik liðanna í úrslitakeppni Íslandsmóts karla í íshokkí. Mæting
á pallana og stuðningur áhorfenda geta skipt sköpum.
Liðin mættust í Skautahöllinni á Akureyri sl. þriðjudagskvöld og þá hirtu Bjarnarmenn sigurinn í jöfnum leik. Eftir erfiða byrjun í öðrum leiknum, sem fram fór í Egilshöllinni á fimmtudagskvöldið, kom hinn rétti karakter SA-liðsins í ljós og strákarnir hreinlega völtuðu yfir Bjarnarmenn í þriðja leikhluta og unnu leikinn. Staðan er því jöfn í rimmunni, 1-1.
Það þarf ekki að orðlengja það að leikurinn í dag verður gríðarlega jafn og harður eins og allir leikir þessara liða því nú skiptir auðvitað hver sigur máli. Væntanlega verður spennustigið í hámarki og því ýmislegt óvænt sem getur gerst.
Þegar Akureyringar spila íshokkí er alltaf - ALLTAF - krafa um sigur. En þegar við gerum slíkar kröfur til leikmanna okkar liða verðum við að vera tilbúin að leggja okkar af mörkum. Nú þurfa félagsmenn og aðrir Akureyringar að spyrja sig: Hvað getum við gert til að stuðla að sigri? Svarið er einfalt: Mætum á leikinn í dag með opinn munninn! Látum í okkur heyra, hvetjum okkar lið til sigurs.
Leikur liðanna hefst kl. 17.00. Aðgangseyrir er 1.500 krónur, en 1.000 krónur gegn framvísun skólaskírteinis. Ókeypis er fyrir 16 ára og yngri.