Karfan er tóm.
Fífurnar unnu sinn fjórða leik á Akureyrarmótinu þegar liðið lagði Garpa, 7-3 í kvöld. Víkingar fylgja Fífunum eftir, hafa unnið þrjá leiki en tapað einum. Riddarar koma í humátt á eftir en þeir eiga tvo leiki eftir og leika frestaðan leik gegn Mammútum úr fyrstu umferðinni miðvikudagskvöldið 13. október.
Úrslit kvöldsins:
Garpar - Fífurnar 3-7
Fálkar - Mammútar 6-3
Riddarar - Víkingar 3-6
Eins og áður segir leika Riddarar og Mammútar frestaðan leik úr fyrstu umferðinni næstkomandi miðvikudagskvöld, en síðan fer lokaumferð mótsins fram mánudagskvöldið 18. október.
Fífurnar standa best allra liða að vígi fyrir lokaumferðina því með sigri gegn Riddurum myndi liðið einfaldlega tryggja sér Akureyrarmeistaratitilinn, hvernig svo sem aðrir leikir færu.
Ætli Riddarar að blanda sér í baráttuna um fyrsta sætið þarf liðið að sigra Mammúta á miðvikudaginn og sigra svo Fífurnar í lokaumferðinni. Þá verða þeir að treysta á að Víkingar tapi gegn Mammútum í lokaumferðinni eða að þeir sjálfir nái góðum skotum (LSD) fyrir leikina sem þeir eiga eftir. Staðan er nefnilega þannig að ef Riddarar og Fífurnar enda jöfn með 4 vinninga en Víkingar tapa og enda með 3 vinninga þá vinna Riddarar mótið með því að vinna innbyrðis viðureignina gegn Fífunum. Ef þessi þrjú lið enda jöfn með 4 vinninga - þ.e. að Víkingar vinni Mammúta og Riddarar vinni bæði Mammúta og Fífurnar, þá eru þessi þrjú lið jöfn í innbyrðis viðureignum. Þá kemur til árangur úr skotum (LSD) fyrir leikina. Þar er staðan þannig að jafnvel þótt Víkingar myndu setja sinn stein á miðjupunktinn og Fífurnar myndu ekki ná inn í hring (eða skjóta í gegn) þá myndi það samt sem áður nægja Fífunum til að vera með betri árangur en Víkingar. Víkingar væru þá með meðaltalið 131,2 (versta skor ekki tekið með) en Fífurnar með 125,6. Riddarar gætu þá náð efsta sætinu með góðum skotum fyrir leikina gegn Mammútum og Fífunum.
Hin þrjú liðin, Fálkar, Garpar og Mammútar eiga ekki möguleika á efsta sætinu en af þessum þremur liðum eiga aðeins Mammútar möguleika á verðlaunasæti, þ.e. ef liðið vinnur báða leikina sem það á eftir.
Næstu leikir:
Miðvikudagur 13. október
Braut 4: Riddarar - Mammútar
Mánudagur 18. október
Braut 2: Mammútar - Víkingar
Braut 3: Fífurnar - Riddarar
Braut 4: Garpar - Fálkar