ALDÍS KARA BERGSDÓTTIR HLÝTUR SILFURMERKI ÍSS

Stjórn Skautasambands Íslands veitir Heiðursmerki ÍSS til þeirra sem starfa og iðka innan skautahreyfingarinnar.

Silfurmerki ÍSS er veitt til íþróttafólks eftir langan feril sem landsliðsfólk og keppni fyrir hönd ÍSS.

Aldís Kara Bergsdóttir lagði skautana á hilluna eftir 15 ára feril í desember síðastliðnum. Að hennar eigin sögn höfðu listskautar verið allt hennar líf síðan hún steig fyrst á ísinn.

Hún æfði nánast alla sína tíð með Skautafélagi Akureyrar og lengst af undir leiðsögn Iveta Reitmayerova en síðar Darja Zajcenko. Síðustu mánuðina hafði hún fært sig yfir til Fjölnis og unnið þar undir leiðsögn Benjamin Naggiar.

Aldís Kara var sífellt að bæta sinn persónulega árangur og metin sem hún sló eru ófá í bæði Junior og Senior flokki. Íslandsmet hennar eru 136.14 heildarstig sem hún náði á Íslandsmeistaramóti 2021. Besta árangri sínum á alþjóðlegumóti náði hún á Finlandi Trophy 2021 þar sem hún hlaut 122.11 heildarstig.

Þátttaka hennar er gríðarlega mikilvæg fyrir skautaíþróttir á Íslandi og framþróun þeirra. Hún er fyrsti íslenski skautarinn til þess að hljóta þátttökurétt og taka þátt á Heimsmeistaramóti Unglinga og á Evrópumeistaramóti fullorðinna í 27 ára sögu Skautasambandsins.

Allan sinn skautaferil hefur Aldís Kara verið gríðarlega mikilvæg fyrirmynd fyrir sér yngri skautara þar sem hún hefur ávallt unnið að sínum markmiðum af mikilli elju.

 

Fyrir hönd stjórnar ÍSS veitti Þóra Sigríður Torfadóttir og María Fortescue Aldísi Köru Silfurmerki ÍSS á Vormóti ÍSS 2023 á Akureyri, heimabæ Aldísar Köru.

(fengið af vef Skautasamband Íslands)