Anna Sonja Ágústsdóttir er íþróttamaður SA 2012

Anna Sonja Ágústsdóttir. Mynd: Ásgrímur Ágústsson
Anna Sonja Ágústsdóttir. Mynd: Ásgrímur Ágústsson


Skautafélag Akureyrar heiðraði í gær íþróttamenn deildanna og jafnframt var lýst kjöri á íþróttamanni SA 2012 í sjöunda skipti.

Anna Sonja Ágústsdóttir er íþróttamaður SA og hokkíkona ársins hjá ÍHÍ
Anna Sonja Ágústsdóttir er Íþróttmaður Skautafélags Akureyrar 2012. Hún er 24 ára varnarmaður og fyrirliði SA-Ásynja og því bæði deildar- og Íslandsmeistari með Skautafélagi Akureyrar árið 2012. Hún var á árinu jafnframt fyrirliði landsliðs Íslands sem tók þátt í Heimsmeistarakeppni Alþjóða íshokkísambandsins í Seúl í S-Kóreu í apríl. Hún fékk eftir það mót viðurkenningu frá Alþjóða íshokkísambandinu og mótshöldurum sem besti varnarmaður mótsins, annað árið í röð. 

Anna Sonja hóf að æfa íshokkí þegar hún var 6 ára gömul og hefur allan sinn feril leikið með Skautafélagi Akureyrar að undanskildu einu tímabili þegar hún lék með Malmö Redhawks í Svíþjóð. Hún hefur jafnframt tekið þátt í öllum verknefnum íslenska kvennalandsliðsins síðan það tók fyrst þátt í Heimsmeistaramóti árið 2005. Anna Sonja var einnig heiðruð af Íshokkísambandi Íslands sem íshokkíkona ársins 2012.

Anna Sonja er mikill íþróttamaður og heilbrigð fyrirmynd.

Íþróttamenn deilda SA 2012
Íþróttamenn deilda SA eru: Ómar Smári Skúlason og Anna Sonja Ágústsdóttir úr Hokkídeild, Jens Kristinn Gíslason úr Krulludeild og Hrafnhildur Ósk Birgisdóttir úr Listhlaupadeild. Þetta er í annað skiptið sem Jens er heiðraður af Krulludeildinni og í þriðja skiptið í röð sem Hrafnhildur Ósk er skautakona Listhlaupadeildar.

Myndasafn af íþróttamönnum SA
Nú hefur verið búið til hér á heimasíðunni myndasafn með myndum af íþróttamönnum SA frá því að það val var fyrst tekið upp 2006, ásamt myndum af íþróttamönnum deildanna frá 2010. Það er að sjálfsögðu heiðursfélagi SA, Ásgrímur Ágústsson, sem tók þessar myndir. Til gamans má geta þess, ef einhver vissi það ekki, að Ásgrímur er einmitt afi Önnu Sonju sem hlaut þennan heiður fyrir árið 2012.

Sjá myndasafnið hér.