Karfan er tóm.
Áramótamótið í krullu fór fram í gærkvöldi og var vel mætt, góð blanda af þeim sem stunda íþróttina að staðaldri og nýju fólki sem stundar krulluna reglulega en þó sjaldan, og svo alveg nýtt fólk líka. Alls mættu 26 manns og hófst mótið með því að þátttakendur tróðu í sig tvíreyktu hangiketi, gröfnum laxi, harðfiski, síld, smákökum og fleira góðgæti - og reyndar einnig á milli leikja. Dregið var saman í lið nema hvað tvö lið voru mynduð sérstaklega með fjölskyldu- og vinaböndum. Leikirnir voru stuttir, aðeins þrjár umferðir hver leikur og lék hvert lið þrjá slíka leiki.
Lið sem kallaði sig Léttfeta stóð uppi sem sigurvegari, nokkuð óvænt eftir að Bláa fjöðrin taldi sig hafa tryggt sér sigur í mótinu með jafntefli í lokaumferðinni. En Léttfeti kom á hægu tölti í lokin, vann leik sinn í lokaumferðinni og náði feti framar en Bláa fjöðrin - liðin enduðu bæði með 5 stig en Léttfeti náði efsta sætinu með því að vinna fleiri umferðir en Bláa fjöðrin. Í þriðja sæti kom svo The Dabbys, en liðið átti möguleika á að tryggja sér sigur í mótinu með sigri gegn Bláu fjöðrinni í lokaumferðinni, stóð vel að vígi fyrir síðustu steina en með undraverðum hætti mistókust útskot og Bláa fjöðrin náði að breyta stöðunni úr 0-3 í 3-3 og taka þar með eitt stig.
Liðsmenn Léttfeta í kvöld voru þau Elísabet Inga Ásgrímsdóttir, Gunnar H. Jóhannesson og Jón Ingi Sigurðsson. Hlutu þau hefðbundin áramótamótsverðlaun.