Ásynjur höfðu betur í vító

Spennand var gríðarleg í skautahöllinni á Akureyri í gærkvöld, þriðjudagskvöld, þegar kvennalið SA áttust við í fjórða skipti í vetur. Ásynjur voru með 3 stig úr fyrri viðureignum liðanna og Ynjur 6 þannig að fyrirfram mátti búast við að Ásynjur myndu leggja allt í sölurnar til að jafna metin.

Fyrstu mínútur leiksins einkenndust af hnoði og mistökum á báða bóga. Þegar um fimm mínútur voru liðnar af leiknum komust Ragnhildur Kjarnansdóttir og Berglind Rós Leifsdóttir í gegnum vörn Ásynja og Ragnhildur átti gott skot að marki Ásynja sem Sonja Johnson, markmaður Ásynja, varði. Um tveimur mínútum síðar komust svo Ásynjur yfir þegar Eva Karvelsdóttir skoraði eftir mistök í vörn Ynja. Stuttu síðar jafnaði svo Sunna Björgvinsdóttir fyrir Ynjur með flottu marki og um mínútu síðar kom Silvía Rán Björgvinsdóttir Ynjum yfir með glæsilegu marki eftir stoðsendingu frá Sunnu. Á þessum tíma var mikill kraftur í leik Ynjanna og þær spiluðu vel. Saga Margrét Blöndal kom Ynjum svo yfir þegar rúmar 5 mínútur voru eftir af fyrstu lotu, eftir gott samspil hennar og Silvíu. Bæði lið áttu góð skot undir lok lotunnar en staðan í leikhléi var 3-1, Ynjum í vil.

Strax í upphafi annarar lotu átti Silvía hörkuskot að marki sem Sonja varði. Berglind Rós náði hins vegar frákastinu og skoraði gott mark og staðan 4-1. Ynjur spiluðu vel en þegar um fimm mínútur voru liðnar af lotunni skoraði Sarah Smiley gott skot með stoðsendingu frá Evu Karvelsdóttur. Ásynjur héldu áfram að gera harða atlögu að marki Ynja en smám saman náðu Ynjur yfirhöndinni aftur. Þegar um 7 mínútur voru liðnar af lotunni var Apríl Orongan vísað af svellinu fyrir slashing en Ynjur létu það ekki á sig fá og innan við hálfri mínútu seinna skoraði Saga sitt annað mark í leiknum og aftur með stoðsendingu frá Silvíu. Hún átt svo enn eitt skotið að marki Ásynja stuttu síðar en það var varið. Á stuttum tíma rétt eftir miðja lotuna kom svo slæmur kafli hjá Ynjum og að sama skapi góður hjá Ásynjum þegar þær náðu að jafna, fyrst með góðu skoti frá Evu, svo með fallegu marki frá Öldu Ólínu Arnarsdóttur og að lokum Díönu Mjöll Björgvinsdóttur og staðan allt í einu 5-5. Jussi Sipponen, þjálfari Ynja, skipti þá um markmann og kom Sólveig Lilja Pells inn á fyrir Birtu Þorbjörnsdóttur sem hafði staðið í markinu. Þegar rúm mínúta var eftir af lotunni kom Ragnhildur Ynjum yfir aftur með stoðsendingu frá Katrínu Rós Björnsdóttur og Ynjur það virtist vera að lifna yfir liðinu aftur.

Ynjur byrjuðu þriðju lotuna í yfirtölu en enn og aftur nýttu þær sér hana ekki. Hins vegar kom Teresa Snorradóttir þeim í 7-5 rétt eftir að Ásynjur fengu fimmta útispilarann inn á. Vörn Ynjanna var slök á þessum tíma og fengu þær á sig mark í yfirtölu þegar Thelma María Guðmundsdóttir skoraði og stuttu síðar skoraði Birna Baldursdóttir með stoðsendingu frá Söruh og staðan var aftur jöfn, 7-7. Ásynjur voru miklu betri á þessum kafla og sóttu stíft og Ynjur náðu ekki að hreinsa frá þannig að það var nánast tímaspursmál hvenær Ásynjur næðu að skora aftur. Það gerði Anna Sonja Ágústsdóttir þegar 7 mínútur voru eftir af síðustu lotunni. Pökkurinn virtist alltaf falla með Ásynjum og á tímabili virtust Ynjurnar hreinlega hættar. Leikmenn beggja liða voru sendir í refsiboxið og loksins náðu Ynjur að nýta sér yfirtölu þegar Saga Margrét skoraði frábært mark, án stoðsendingar og náði að jafna, 8-8. Þannig lauk síðustu lotunni og leikurinn var framlengdur í 5 mínútur.

Í framlengingunni var spilað þrjár á þrjár og leikmenn beggja liða augljóslega þreyttir. Ynjur sóttu þó töluvert meira og áttu nokkur skot að marki Ásynja en Sonja varði allt. Hvorugt liðið náði að skora þannig að leikurinn fór í vítakeppni. Þar tókst hvorugu liðinu að skora fyrr en Díana Mjöll skoraði úr fjórða víti Ásynja og þær hirtu þar með þriðja stigið.

Jussi Sipponen, þjálfari Ynja sagði að það væri erfitt að vinna leik þegar lið fengi á sig 8 mörk og að liðið þyrfti að spila miklu betri vörn. Það væri þó jákvætt að Ynjur hefðu einnig skorað 8 mörk. Vítakeppni væri svo alltaf svolítið happdrætti og í þetta skipti unnu Ásynjur í því. Bart Moran, þjálfari Ásynja sagði að bæði lið hefðu átt sína góðu og slæmu kafla en lofaði seiglu og baráttu beggja liða.

Ynjur völdu Sögu Margréti verðskuldað mann leiksins og að öðrum ólöstuðum var frænka hennar, Sonja Johnson maður Ásynja. Saga skoraði þrennu í leiknum en hjá Ásynjum skoruðu Eva og Díana tvö mörk hvor. Ásynjur komust með sigrinum í efsta sæti deildarinnar, eru með 17 stig en Ynjur eru með 16 en eiga leik til góða. Liðin mætast aftur 12. desember og þá má aftur búast við spennu í skautahöllinni á Akureyri.