Karfan er tóm.
Björninn tók á móti Ásynjum Skautafélags Akureyrar í gær í fyrsta leik liðanna í Hertz-deild kvenna. Þrátt fyrir að Ásynjur hafi stjórnað leiknum mest allan tímann þá spiluðu Bjarnarkonur þétta vörn í byrjun og náðu Ásynjur ekki að skora fyrr en undir lok fyrstu lotu. Þar var á ferðinni Rósa Guðjónsdóttir sem gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk á sömu mínútunni. Rósa átti stórgóðan leik en þetta var hennar fyrsti leikur eftir 6 ára fjarveru vegna meiðsla. Ekki urðu mörkin fleiri í fyrstu lotu og endaði hún því 0-2 Norðankonum í vil.
Önnur lota einkenndist af mikilli pressu frá Ásynjum að marki Bjarnarins. Í lotunni áttu Ásynjur 21 skot á mark en Björninn náði ekki skoti á mark. Þær spiluðu þó þétta vörn líkt og í fyrstu lotu og voru duglegar að hindra skot utan að velli til að hjálpa markmanninum sínum, Guðlaugu Ingibjörgu, sem stóð örugg milli stanganna. Ásynjur skoruðu 3 mörk í þessari lotu og voru þar á ferðinni þær Arndís Eggerz, Alda Ólína og Bergþóra Heiðbjört.
Algjör einstefna var í þriðju og síðustu lotunni. Þá opnuðust allar flóðgáttir og Ásynjur skoruðu 8 mörk á síðustu 20 mínútum leiksins. Thelma María, Linda Brá og Arndís Eggerz skoruðu allar tvö mörk og fullkomnaði Arndís þar með þrennuna sína og einnig skoruðu Anna Sonja og Alda Ólína sitt markið hvor. Leiknum lauk því með 13 marka sigri Ásynja gegn engu marki Bjarnarins.
Eftir úslit þessa leiks verður að velta upp þeirri spurningu hvort að kvennalið Bjarnarins ætli ekki að nýta sér það að Skautafélag Akureyrar spili fram tveimur aðskildum liðum í vetur, nú þegar lánsreglan hefur verið lögð niður. Sunnankonur gagnrýndu regluverkið í fyrra þegar hinar norðlensku sameinuðu lið sín í úrslitum en þurfa , miðað við þessar tölur, heldur betur að gera eitthvað að gera í sínum málum ef þær ætla að gera atlögu að toppsæti í deildinni.
Mörk og stoðsendingar Ásynja:
Arndís Eggerz 3/0
Thelma María Guðmundsdóttir 2/1
Linda Brá Sveinsdóttir 2/1
Alda Ólína Arnarsdóttir 2/0
Rósa Guðjónsdóttir 2/0
Bergþóra Heiðbjört Bergþórsdóttir 1/4
Anna Sonja Ágústsdóttir 1/1
Jónína Margrét Guðbjartsdóttir 0/4