Karfan er tóm.
Barna- og unglingamót Skautasambands Íslands verður haldið um komandi helgi. Allir eru velkomnir að koma og horfa á bestu skautara landsins etja þar kappi. Frítt er inn og foreldrafélag deildarinnar selur kaffi og með því á vægu verði, til styrktar iðkendum.
Bæði A og B iðkendur frá Skautafélagi Akureyrar, Skautafélagi Reykjavíkur og Birninum sýna listir sínar á svellinu. Í öllum flokkum eru úrslit hengd upp um leið og niðurstaðan hefur verið reiknuð út og verður þeim sem ná efstu þremur sætunum veitt verðlaun. Þannig finnst mörgum gaman að hafa með sér penna og skrifa hjá sér stigin til að fylgjast með því hver er í forystu. Í elstu A flokkunum, sem kallast, Novice (stúlknaflokkur), Junior (unglingaflokkur) og Senior (kvennaflokkur) er keppt bæði á laugardag og sunnudag, niðurstaða þeirra flokka ræðst því ekki fyrr en seinni daginn, eftir seinni dansinn. Allir B flokkar og yngri A flokkar keppa bara einu sinni, þannig að eftir blóð svita og tár eru það bara 2-3 mínútur ráða úrslitum.
Ef fólk á erfitt með að gera upp við sig hvenær best er að mæta í höllina þá má benda á að skemmtilegt er að fylgjast með öllum í flokki Junior A (unglingaflokki), en þar er m.a. nýkrýndur Íslandsmeistari og fulltrúi Íslands á Norðurlandamótinu sem fram fór í Asker í Noregi nýlega, Dana Rut Gunnarsdóttir frá SR. Sama má segja um flokk Novice A (stúlknaflokki) þar er m.a. skautakona Listhlaupadeildar Skautafélags Akureyrar 2009 og Akureyrarmeistari sama ár Helga Jóhannsdóttir og Heiðbjört Arney Höskuldsdóttir SR sem tók þátt í Norðurlandamótinu í Asker á dögunum og náði þar að auki þeim frábæra árangri að vera í 2. sæti á Reykjavík International og náði þar samanlagt 71.15 stigum. Í flokki 12 ára og yngri A eru fjórir iðkendur, m.a. Vala Rún B. Magnúsdóttir S.R náði 2. sæti í sínum flokki á Reykjavík International og var þar með 37,63 stig úr sínum dansi, sem telst mjög gott hér á landi. Reyndar hafa þeir þrír skautarar sem keppt hafa í flokknum í það sem af er þessu skautaári skipst á að ná verðlaunum á mótum. Fyrir utan A flokkana verður auðvitað frábært að fylgjast með Audrey Freyju Clarke keppa í kvennaflokki B, en hún hefur um margra ára skeið verið ein fremsta skautakona landsins og snýr nú aftur á svellið eftir nokkurt hlé, en hún hefur bæði keppt fyrir SA og SR - og því mjög vinsæl hjá báðum félögum. Í flokki Junior B (unglingaflokki) verður spennandi að fylgjast með öllum keppendum sem hafa skiptst á því að ná sætum á mótum, þess má þó geta að Andrea Rún Halldórsdóttir SA keppir í þessum flokki en hún náði á dögunum sínum fyrsta tvöfalda Axel, sem hlýtur að teljast alveg frábært og vonandi fáum við að sjá hann í keppni áður en langt um líður.
Þrátt fyrir að hægt sé að nefna einstaka nöfn þá ættu allir að muna að það er dansinn frá upphafi til enda sem skiptir máli ekki eitt einstakt atriði eins sem ræður úrslitum, eins og Plushenko fékk illþyrmilega að finna fyrir á Ólympíuleikunum á dögunum þegar hann lenti fjórfalt stökk í sínum dansi en Lysacek frá USA náði engu að síður gullinu, þrátt fyrir að vera ekki með neitt slíkt stökk í sínum dansi, en dómararnir mátu engu að síður betri. Það kemur því ekki í ljós fyrr en um helgina hver nær besta árangrinum - flestir reyna þó að keppa við sjálfan sig og nái þeir að vera aðeins betri á þessu móti en því síðasta þá hafa þeir gert vel. Aðalatriðið á endanum er auðvitað að hafa gaman af þessu brosa og búa til góðar minningar.
Þá vil ég minna á að þann 23. og 25. febrúar n.k. er komið að konunum í Vancuver og þar er á meðal keppenda Ivana Reitmayerova frá Slóvakíu en hún hefur æft hér á Akureyri þegar móðir hennar og þjálfari hefur komið að þjálfa í æfingabúðum SA.
Fyrir þá sem ætla að mæta mæli ég með því að taka með sér teppi, því það getur orðið æði kalt í höllinni - þó að það sé heitt á ísnum :-)
Dagskrá mótsins má finna á heimasíðu Skautasambands Íslands www.skautasamband.is en dregið verður í keppnisröð á þriðjudaginn og röð keppenda birt á heimasíðu sambandsins.
Hlökkum til að sjá sem flesta!