Karfan er tóm.
Eftir fyrstu umferð úrslitaleiksins benti fátt til að Garpar myndu verja titilinn, en liðið varð bikarmeistari í krullu 2009. Fálkar skoruðu 6 stig strax í fyrstu umferðinni og útlitið því dökkt hjá bikarmeisturunum. Garpar skoruðu aðeins eitt stig í annarri umferð og Fálkar svöruðu með einu í þriðju umferðinni, staðan orðin 7-1 Fálkum í vil og leikurinn hálfnaður. Þá gerðu Garpar sér lítið fyrir og skoruðu 5 stig, minnkuðu muninn í 7-6.
Fálkar skoruðu aftur eitt stig í næstsíðustu umferðinni og hófu lokaumferðina með tveggja stiga forskoti, 8-6. Í lokaumferðinni var síðan barist um tommurnar, Garpar höfðu einn stein innan við innsta stein Fálka fyrir síðasta stein hvors liðs. Síðasti steinn Fálka fór aðeins of langt og Garpar fengu tækifæri til að skjóta í sinn stein og koma honum inn á miðjuna, sem þeir og gerðu, bættu þar með við öðru stiginu og jöfnuðu leikinn, 8-8.
Lokaumferðin var síðan spennandi, Garpar höfðu stigið lengst af en Fálkar nokkuð óheppnir með sín skot þegar þeir reyndu að skjóta í sinn stein og koma honum inn á miðjuna, eitt skot var t.dl of laust en annað skot, þar sem steinn Fálka stefndi rétta leið, var of fast og steinninn fór of langt. Áfram héldu Garpar stiginu og gátu lokað vel fyrir leiðina að honum með sínum síðasta steini. Fálkar áttu aðeins eina leið til að reyna að skora með lokasteininum, þ.e. að skjóta í sinn eigin stein sem lá utarlega á hring hægra megin frá skotmanni séð og fara af honum inn á miðjuna. Það gekk ekki eftir og Garpar héldu stiginu, skoruðu eitt stig í lokaumferðinni og unnu leikinn, 9-8, eftir ævintýralegan viðsnúning.
Segja má að Garpar hafi þarna endurtekið leikinn frá 2006 en þá lentu þeir 4-0 undir eftir fjórar umferðir gegn Norðan 12, jöfnuðu síðan leikinn í lokaumferð og unnu aukaumferð og þar með titilinn.
Þetta er hvorki meira né minna en í fjórða skipti sem Garpar verða bikarmeistarar (2004, 2006, 2009, 2010) en þetta var í sjöunda skipti sem mótið fer fram. Hallgrímur Valsson, fyrirliði Garpa, er eini liðsmaðurinn sem verið hefur í bikarmeistaraliði Garpa öll fjögur skiptin. Hann er því sannkallaður bikarmótskóngur Krulludeildarinnar. Keppt er um bikar sem Garpar gáfu einmitt til minningar um Magnús E. Finnson, fyrrverandi liðsmann Garpa, en í leiknum í kvöld lék einmitt sonur Magnúsar, Andri Freyr, með liði Fálkar.
Krulluvefurinn óskar Görpum til hamingju með titilinn og Fálkum með silfrið.
Fréttaritari gerði dálitla tilraun í Skautahöllinni í kvöld. Fartölva (með vefmyndavél) var með í för og var henni stillt upp og síðari hluti aukaumferðarinnar var tekinn upp, með lýsingu þess sem þetta ritar. Myndbandið er hins vegar of stórt til að koma því hér inn á vefinn eða á Facebook en unnið verður í að bæta úr því. Vonandi getum við birt myndbandið hér innan tíðar.