Björninn Í úrslit gegn SA

Þau óvæntu úrslit urðu á dögunum að Björninn bar sigurorð af SR í síðustu viðureign liðanna í undankeppninni, og tryggði sér með því sæti í úrslitum.  Sigurinn var í sjálfu sér ekki óvæntur enda hefur verið mikið jafnræði með öllum liðum síðari hluta tímabilsins, hins vegar þurftu Bjarnarmenn að vinna með 4 mörkum til þess að ná markmiði sínu. 
Fyrirfram þótti það ekki líklegt að Birninum tækist að vinna með svona miklum mun, því það var talið frekar auðvelt fyrir reynslumeira lið SR að pakka í vörn og ef ekki vinna, þá í versta falli tapa með minna en fjórum mörkum.

En svo bregðast krosstré sem önnur, Bjarnarmenn mættu klárir í slaginn og slógu andstæðinga sína út af laginu strax í upphafi leiks og unnu fyrstu lotuna 6 – 0 og gerðu þar með út um leikinn.   Skautafélag Reykjavíkur er þá komið snemma í sumarfrí þetta árið, en SA og Björninn mætast í úrslitum í fyrsta skiptið síðan 2001.  Það er gaman að segja frá því að í Birninum er enginn leikmaður úr 2001 liðinu nema Sergei Zak en hann er nú þjálfari.


Hjá SA eru hins vegar nokkrir leikmenn sem tóku þátt í úrslitarimmunni 2001 en það eru þeir Stefán Hrafnsson, Jón Gíslason, Sigurður Sigurðsson, Rúnar Rúnarsson, Ingvar Þór Jónsson og Björn Már Jakobsson.  Þetta segir allt sem segja þarf um aldursmuninn á liðunum.  SA teflir fram elsta liðinu í deildinni á meðan Björninn teflir fram því yngsta.


SA hefur spilað til úrslita öll þau 18 ár sem keppt hefur verið í Íslandsmóti þriggja liða, en þetta er í fjórða skiptið sem Björninn kemst í úrslit, í fyrri skiptin var það 1995, 1997 og 2001.  Árið 1998 tefldu sunnanliðin fram sameiginlegu liði, en það tímabil var stutt vegna byggingu skautahallarinnar í Laugadalnum.


Úrslitin hefjast hér á Akureyri n.k. fimmtudag og verða fyrstu tveir leikirnir spilaðir hér, þ.e. á fimmtudag og föstudag.  Þriðji leikurinn fer svo fram á sunnudag í Reykjavík, og ef til þess kemur fer sá fjórði fram á mánudeginum í Reykjavík og sá fimmti og síðasti á miðvikudag á Akureyri.