Karfan er tóm.
Emilía Rós Ómarsdóttir frá Skautafélagi Akureyrar stóð sig frábærlega í keppni í listhlaupi á
skautum í dag, en hún keppir á móti í Króatíu ásamt þremur öðrum stúlkum úr SA í landsliðshópi
Skautasambands Íslands.
Eftir því sem við komumst næst varð Emilía í dag fyrst íslenskra keppenda til að vinna til verðlauna á ISU-móti. Hún varð í þriðja sæti í Basic Novice A flokki á Mladost Trophy sem fram fer í Zagreb í Króatíu. Emilía Rós verður fjórtán ára á þessu ári. Frábær árangur hjá þessari efnilegu stelpu og megum við örugglega eiga von á fleiri afrekum frá henni í framtíðinni.
Emilía lauk keppni með 36,61 stig, en fyrir ofan hana voru tvær ítalskar stúlkur með 41,47 og 37,69 stig - sjá lista með úrslitum.
Efstu myndina hér að neðan tók Ásgrímur Ágústsson af Emilíu Rós á Vetrarmóti ÍSS á dögunum, en hinar tvær eru frá verðlaunaafhendingu í Króatíu í gær.