SA konur unnu Fjölni í vítakeppni

SA fagnar jöfnunarmarkinu.  Myndina tók Ólafur Þorgrímsson
SA fagnar jöfnunarmarkinu. Myndina tók Ólafur Þorgrímsson

SA og Fjölnir mættust í meistaraflokki kvenna hér í skautahöllinni á Akureyri í gær. Mikið jafnræði hefur verið með liðunum í ár og leikurinn í gær var engin undantekning. Leikurinn var markalaus fram í 3. lotu en þá náði Fjölnir forystunni með marki frá Kolbrúnu Garðarsdóttur eftir sendingar frá Berglindi Leifsdóttur og Hilmu Bergsdóttur. Skömmu síðar jafnaði svo Amanda Bjarnadóttir leikinn fyrir SA og þannig stóðu leikar að loknum venjulegum leiktíma.

Úrslitin réðust ekki í framlengingu og því þurfi vítakeppni til að knýja fram úrslit í leiknum. Þar bar SA sigur úr býtum eftir mörk frá Önnu Sonju Ágústsdóttur, Kolbrúnu Björndóttur og Silvíu Björgvinsdóttur. Fjölnir skoraði eitt mark í vítakeppni og það var Hilma Bergsdóttir.

Einhver í stúkunni hafði á orði að það væri bara ágætt að öll stig leiksins væru norðlensk, og nærstaddir kinkuðu kolli.

Markmenn beggja liða voru í aðalhlutverkum, Shawlee Gaudreault hjá SA og Karítas Halldórsdóttir hjá Fjölni.  SA átti 34 skot á mark og Fjölnir 24.

SA er þá á toppi deildarinnar sem stendur með 19 stig eftir 9 leiki en Fjölnir er með 17 stig en á leik til góða, og SR rekur lestina með 3 stig eftir 9 leiki. Næsti leikur SA verður gegn Fjölni sunnan heiða þann 1. febrúar n.k.