Evrópumót blandaðra liða - European Mixed Curling Championship

European Mixed Curling Championship - Evrópumót blandaðra krulluliða - stendur nú yfir í Prag í Tékklandi.

Í keppni í blönduðum liðum eru tveir karlar og tvær konur og er uppröðun liðanna þannig að ef karlmaður er númer eitt í röðinni þá er kona númer tvö og svo framvegis. 

Mótið hófst 26. september og lýkur því laugardaginn 3. október. Ice Cup á þrjá fulltrúa á mótinu, ef þannig má að orði komast. Tveir liðsmenn í slóvakíska liðinu, þau Milan Kajan og Gabriela Kajanova, sem nú spila á Evrópumótinu spiluðu á Ice Cup 2005. Þegar þetta er skrifað hefur slóvakíska liðið unnið tvo leiki en tapað þremur. Einn liðsmaður danska liðsins, Camilla Jensen, spilaði á Ice Cup 2006. Danska liðið vann silfurverðlaun á EM fyrir tveimur árum og virðist líklegt til afreka þetta árið. Liðið hefur unnið fimm fyrstu leiki sína og er að sjálfsögðu efst í sínum riðli. Slóvakíska liðið er í 4.-6. sæti í sama riðli en átta lið eru í riðlinum.

Vefur mótsins: http://emcc2009.curling.cz/

Á vef mótsins er að finna öll úrslit, upplýsingar um liðin, skemmtilegar myndbandsfréttir, vefmyndavél þar sem hægt er að horfa á yfirstandandi leiki og margt fleira.