Karfan er tóm.
Keppni á Evrópumótinu, C-flokki, hófst í kvöld og má segja að íslenska liðið hafi byrjað með látum því strákarnir skoruðu 5 stig strax í fyrstu umferðinni og nánast tryggðu sér sigurinn. Andstæðingarnir náðu að skora eitt í annarri umferðinni en íslenska liðið svaraði með tveimur stigum í þeirri þriðju. Aftur náðu andstæðingarnir aðeins einu stigi og síðan gerðu okkar menn endanlega út um leikinn með því að skora fjögur stig í fimmtu umferðinni og luku svo leiknum með því að stela stigi í þeirri sjöttu. Þá játaði lið Lúxemborgar sig sigrað, úrslitin 12-2 Íslandi í vil. Liðið spilaði vel í kvöld og gaf keppinautunum fá færi til að vinna upp forskotið úr fyrstu umferðinni.
Á morgun leikur liðið tvo erfiða leiki, fyrst gegn Slóvökum kl. 12 að staðartíma og svo gegn Tyrkjum klukkan 19. Slóvakar unnu sinn leik í fyrstu umferðinni en Tyrkir sátu hjá. Til gamans má geta þess að Tyrkir eru nýliðar í krullunni og þetta er þeirra fyrsta Evrópumót. Þeir hafa hins vegar æft stíft undir leiðsögn færs þjálfara og hafa verið í tvær vikur í Glasgow við æfingar á svellinu í Braehead.
Úrslit 1. umferðar:
Ísland - Lúxemborg 12-2
Slóvakía - Serbía 8-2
Litháen - Hvíta-Rússland 7-8