Karfan er tóm.
Stelpurnar fóru út ásamt glæsilegum hópi íþróttafólks, þjálfara og fararstjóra frá Akureyrarbæ. Þetta er í annað sinn sem Akureyrarbær sendi keppendur á þessa leika og þvi reynslunni ríkari í þetta skiptið.
Skipulagning og undirbúningur var til mikillar fyrirmyndar, auk utanum halds á meðan á leikunum stóð.
Ferðalagið var talsvert og fór hópurinn af stað með rútu frá Akureyri snemma að morgni 6. janúar og óku þau sem leið lá til Keflavíkur. Þar var hópurinn tékkaður inn og lá því næst leiðinn með flugi Wow air til Montreal í Kanada. Þaðan var svo ekið með rútu til Lake Placid og var hópurinn komin á leiðarenda um 22.30 að staðartíma (03.30) á okkar tíma (ferðalagið tók um 21 klst).
Fyrsta daginn var æfing hjá stelpunum og svo var opnunarhátíð leikanna um kvöldið. Hún var mjög flott og voru krakkarnir okkar alveg til fyrirmyndar þar jafnt og annarstaðar á leikunum.
Á þriðjudaginn var svo komið að keppni með stutt prógram hjá stelpunum. Það má nefna það hér að þetta var fyrsta mót Freydísar Jónu í nýjum flokki.
Ekki gekk nú allt sem skildi hjá stelpunum í stutta prógraminu, Freydís Jóna hafnaði í 17 sæti með 20.71 stig en Júlía Rós hafnaði í 20 sæti með 19.44 stig eftir stutta.
Á miðvikudeginum var svo komið að frjálsa prógraminu. Þá var greinilegt að ferðaþreytan var farin úr stúlkunum og stóðu þær sig báðar virkilega vel. Júlía Rós var 12 eftir frjálsa prógramið með 43,88 stig og hífði hún sig upp í 15. sæti með samanlagt 63.32 stig. Freydís Jóna var 13. eftir frjálsa prógramið með 41.39 stig og hækkaði hún sig upp í 16. sæti með 62.10 stig samanlagt. Flottur árangur hjá þessum ungu skautakonum.
Á fimmtudeginum var keppendum í listhlaupi skipt upp í 3 hópa og bjuggu þau til dansa og kepptu svo innbyrðis. Júlía Rós var í liðinum sem sigraði eftir bráðabana og Freydís í liðinu sem hafnaði í þriðja sæti. Þetta var skemmtileg tilbreyting og til þess gerð að krakkarnir kynntust innbyrðis.
Mótinu lauk svo með lokahátíð og heljarinnar danspartýi á fimmtudagskvöldið.
Heimferðin gekk mjög vel og var hópurinn komin til Akureyrar um hádegi á laugardaginn 12. janúar.
Þetta var mikil upplifun og munu stelpurnar búa að þessari reynslu lengi.