Karfan er tóm.
Rekstur Skautafélags Akureyrar var erfiður á liðnu ári, en vonir eru bundnar við nýjan rekstrarsamning við Akureyrarbæ sem nú er á lokastigi. Sigurður Sveinn Sigurðsson var sjálfkjörinn áfram í embætti formanns. Viðar Jónsson hættir sem framkvæmdastjóri um mánaðamótin.
Aðalfundur Skautafélags Akureyrar var haldinn í Skautahöllinni í gærkvöldi. Fundurinn var með hefðbundnu sniði samkvæmt lögum félagsins.
Sigurður Sveinn Sigurðsson formaður flutti skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár. Hann sagði meðal annars frá því að vinna við nýjan rekstrarsamning við Akureyrarbæ væri á lokastigum og vonandi yrði til nýr og raunhæfur rekstrarsamningur fyrir næsta tímabil. Dröfn Áslaugsdóttir gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins á liðnu starfsári, en fram kom að rekstrartap var á tveimur deildum af þremur árið 2012 og á samstæðunni í heild samtals upp á rúmlega 11 milljónir króna.
Fram kom í skýrslu formannsins að Viðar Jónsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Skautafélags Akureyrar í um níu ár, muni hætta störfum núna um mánaðamótin. Sigurður þakkaði honum, sem og Reyni Sigurðssyni, sem hætti störfum um síðastliðin áramót eftir um sjö ára starf.
Sigurður gaf áfram kost á sér sem formaður og var sjálfkjörinn. Ólöf Björk Sigurðardóttir, Reynir Sigurðsson og Dröfn Áslaugsdóttir gáfu áfram kost á sér til stjórnarsetu, en þau Helga Margrét Guðjónsdóttir, Hallgrímur Valsson og Davíð Valsson hættu í stjórn. Í þeirra stað koma inn Halldóra Ósk Arnórsdóttir, nýr formaður Listhlaupadeildar, Haraldur Ingólfsson, nýr formaður Krulludeildar, og Jón Grétar Rögnvaldsson.
Undir liðnum önnur mál fór Sigurður formaður yfir helstu niðurstöður og hugmyndir sem fram komu á stefnumótunar- og hugmyndafundi sem haldinn var á vegum félagsins nýlega og við sögðum frá hér á heimasíðunni.