Karfan er tóm.
Á morgun laugardag hefst íshokkítímabilið hjá SA en þá verða leiknir tveir leikir í meistaraflokkum karla og kvenna í Skautahöllinni á Akureyri. SA Víkingar hefja veisluna þegar þeir taka á móti SR í Hertz-deildinni en leikurinn hefst kl. 16.30. Strax á eftir þeim leik eða um kl. 19 leika Ynjur við SR í meistaraflokki kvenna.
Lið Víkinga hefur tekið smávægilegum breytingum frá síðasta tímabili. Þjálfari liðsins er hinsvegar sá sami og á síðasta tímabili eða hinn geðþekki Finni Jussi Sipponen en hann verður spilandi þjálfari líkt og í fyrra. Af þeim sem bæst hafa í liðið má helst nefna að Jóhann Már Leifsson er kominn aftur í lið Víkinga en hann spilaði í Svíþjóð á síðasta tímabili. Þetta er mikill hvalreki fyrir liðið enda Jóhann ekki bara einn af allra bestu leikmönnum Íslands heldur hefur hann einnig einstaka útsjónarsemi og lipurð sem frábært verður að fylgjast með í vetur. Þá er komin nýr markmaður frá Finnlandi og ber hann sama nafn og að virðist allir aðrir karlkyns finnar; Jussi. Fjölmargir ungir og spennandi leikmenn munu taka sín fyrstu skref í meistaraflokki í vetur en það hefur skapast nokkuð pláss í leikmannahópnum þar sem eitthvað hefur kvarnast úr af eldri leikmönnum liðsins. Heiðar Örn Kristveigarsson sem var spútnik leikmaður ársins á síðasta tímabili hjá Víkingum mun spila með Furudal í Svíþjóð í vetur. Þá hafa þeir Mario Mjelleli og markmaðurinn Steve Papciak haldið til sín heima og snúa ekki aftur á þessu tímabili.
Lið Ynja er að mestu skipað sömu leikmönnum og á síðasta tímabili en þær hafa nú bætt við sig einu mikilvægu ári og þar af leiðandi má reikna með þeim nú bæði sterkari og hraðari. Í liðið bættast nú við einar 6 ungar stelpur sem koma úr yngri flokka starfinu og þá eru tveir nýjir markmenn í liðinu. Kolbrún Garðarsdóttir hefur glímt við meiðsli og verður því líklegast ekki með í leiknum á morgun. Það verður spennandi að fylgjast með liðinu í vetur því ef þær sýna sömu framfarir og á síðasta tímabili þá eru þær til alls líklegar.
Verið velkomin í Skautahöllina á morgun. Aðgangseyrir er 1000kr. á leik Víkinga frítt fyrir 16 ára og yngri. Engin aðgangseyrir á leik Ynja.